Listasafn Reykjanesbæjar hefur opnað yfirlitssýningu á verkum Daða Guðbjörnssonar en hann hefur gefið safninu 400 grafíkverk. Sýningin stendur til 29. nóvember.

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að gefa þessu listasafni svo gríðarlega mörg verk segir Daði: „Hugmyndin kviknaði í samtali um sýningu á pólskri grafík sem haldin var á síðasta ári í safninu, en Aðalsteinn Ingólfsson var sýningarstjóri hennar. Mér fannst mjög gaman að skoða þá sýningu. Mér finnst skemmtileg tilhugsun að hafa stórt safn eftir mig af grafíkverkum á sama stað, en ég hef alltaf verið heillaður af grafík og lagt metnað í að vinna hana. Á sýningunni eru verk frá 1978 til 2020, það gefur að líta nær allar tegundir prenttækni grafíklistarinnar með ýmsum tilbrigðum.“

Daði hefur áður sýnt verk sín í safninu. „Ég hélt einkasýningu í safninu 2008 sem ég kallaði Dans elementanna, og sýndi þar á samsýningu með Gullpenslunum 2007. Mér finnst sýningarsalurinn mjög fallegur. Svo hefur fólk á þessu svæði keypt mikið af verkum eftir mig í gegnum árin."

Ég hef alltaf verið heillaður af grafík, segir Daði. Fréttablaðið/Anton brink

Sýningastjóri er Aðalsteinn Ingólfsson og skrifar hann einnig í sýningarskrá meðal annars: „Fyrir blöndu tilviljana og ásetnings hefur Listasafn Reykjaness á undanförnum misserum eignast umtalsvert magn merkilegra grafíkverka eftir íslenska og erlenda listamenn. Þegar við bætast hundruð grafíkverka eftir Daða Guðbjörnsson, er deginum ljósara að Listasafn Reykjaness er skyndilega orðið stærsta safn grafíklistaverka á landinu. Þessi staðreynd gerir safninu kleyft að marka sér sérstöðu í samfélagi íslenskra safnastofnana, kjósi aðstandendur þess að fara þá leið.“

Aðalsteinn segir að gjöfin sé einstök sýnisbók grafíktækninnar. „Þarna eru tréristur, dúkristur, steinprent, koparætingar, sáldþrykk, einþrykk, offset þrykk og blönduð verk, þar sem tvö eða þrjú prentafbrigði eru saman komin. Að ógleymdum handlituðum eða yfirprentuðum þrykkjum í öllum regnbogans litum. Uppáfinningasemi listamannsins virðast engin takmörk sett. Er ljóst að þarna er að finna hráefni bæði til sýninga og margháttaðra kennslufræðilegra tilrauna með nemendum í myndmennt. Listasafn Reykjaness hefur einmitt lagt sig fram um að vinna með skólum í bæjarfélaginu.“