Gísli Örn Garðarsson skrifar og leikstýrir nýju verki sem verður sett upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu næsta haust. Verkið er saga einnar fjölskyldu í heila öld, en endurspeglar í raun sögu heillar þjóðar. Leikverkið byggir á sígildu verki Thornton Wilder, The Long Christmas Dinner, sem notið hefur mikillar hylli víða um heim en hefur enn ekki verið sýnt í atvinnuleikhúsi á Íslandi.

Sagan hefst árið 1916. Konur hafa nýverið fengið kosningarétt á Íslandi. Bruninn mikli í Reykjavík er nýafstaðinn og fyrri heimstyrjöldin geisar. Fjölskylda er í óða önn að undirbúa fyrstu jólamáltíðina í nýbyggðu húsi við Skothúsveg.

Fjölskyldunni er fylgt gegnum umrót síðustu hundrað ára og fram til dagsins í dag; seinni heimsstyrjöldin, stofnun lýðveldisins, þorskastríð við Breta, hippatímabilið, kosning fyrsta kvenforseta þjóðarinnar, breytingar í sjávarútvegi. Saga fjölskyldunnar á Skothúsvegi verður Íslandssagan í smækkaðri mynd.