Örn Úlfar Sævarsson hugmyndasmiður tekur í dag þátt í ráðstefnu Almannaróms og Samtaka atvinnulífsins um framtíð máltækni í atvinnulífinu. Ráðstefnan er í Silfurbergi í Hörpu í dag og hefst klukkan 14.30 og stendur yfir til 16.30.

„Við stöndum á ákveðnum tímamótum og erum búin að leggja gríðarlega vinnu í alls konar orðasöfn og svona grunnhugbúnað,“ segir Örn og líkir vinnunni við þróun íslenskrar máltækni við ísjaka.

Spurður að því hvort Íslendingar geti brátt slökkt ljósin heima hjá sér með íslenskuna eina að vopni segir Örn allt að verða klárt til þess að hægt sé að þróa þá tækni. „Núna er komið að því að fá tæknina inn í hin ýmsu tæki. Það er gríðarlega mikilvægt að íslenskan fái að lifna við í þessum stafræna heimi sem við búum í svo við getum farið að tala við tækin okkar á íslensku.“

Örn segir Eurovision-keppnina frábært dæmi um mögulegan mátt máltækninnar. „Þarna erum við með Gísla Martein sem þul, sem tæpir á því helsta og endursegir. En hvað ef við værum bara með sjálfvirka þýðingu?“ spyr Örn og bætir við að það verði brátt möguleiki.

„Eða textað kynnana í rauntíma. Þetta verður bráðum hægt en þetta er náttúrulega ótrúlega flókin tækni, enda talar fólk á alls konar hátt, er með fjölbreyttar raddir og framburði,“ segir Örn og bætir við að möguleikarnir séu endalausir.

„Kannski vill RÚV bara fá raddsýni frá Gísla Marteini þannig að hann geti lýst þessu næstu hundrað árin,“ segir Örn Úlfar og hlær. „Eða þá að við getum bara valið á milli mismunandi radda, annað hvort Gísli Marteinn eða einhver annar. Tæknin er komin á þann stað að möguleikarnir eru bara endalausir.“