Gísli Marteinn Baldursson hefur með fróðlegum útvarpsþáttum sínum haslað sér völl sem einn helsti sérfræðingur landsins í belgísku myndasöguhetjunni Tinna. Hann heldur fyrirlestur byggðan á þáttunum í hönnunarversluninni Epal í kvöld, umkringdur Tinna-varningi sem hann segir ýta undir einhvers konar dýrkun á eigin æsku.

„Ég fer bara í rauninni í gegnum sögu Tinna-bókanna frá fyrstu bók til hinnar síðustu,“ segir Gísli Marteinn í samtali við Fréttablaðið. „Og legg kannski sérstaka áherslu á þessa þætti sem ég var að rannsaka í útvarpsþáttunum sem eru þá stjórnmálaskoðanirnar og saga 20. aldarinnar sem speglast í þessum bókum,“ segir hann og nefnir til dæmis uppgang fasismans, stríðið og síðan kalda stríðið.

„Allt þetta sem maður tók ekkert endilega eftir þegar maður var barn að lesa bækurnar en er hægt að sjá svolítið vel þegar maður rýnir í þetta með réttum gleraugum.“

Fordómar og furðuleg staða kvenna

„Þá tek ég líka fyrir fordómana sem birtast með nýlendustefnu Belga og allt það og síðan kynjahlutverkin sem eru mjög spes í bókunum. Það eru alveg furðulega fáar konur í þessu sögum og í rauninni er bara ein kona af þessum 50 stærstu persónum,“ segir Gísli og á þar vitaskuld við óperusöngkonuna Vælu Veinólínó.

En á hann sjálfur allar Tinna-bækurnar í hinum hressilegu og sígildu þýðingum Lofts Guðmundssonar?

„Nei, því miður ekki og ég þurfti að fá lánaðar bækur sem mig vantaði inn í hjá vinum mínum þegar ég var að gera þessa þætti,“ segir Gísli Marteinn sem á þó hina, í seinni tíð, mjög svo umdeildu bók um Tinna í Kongó.

„Ég hef hana nú alveg uppi við en maður þarf bara að vita hvað maður er að lesa, áróður kaþólskra presta fyrir nýlendustefnunni í Kongó. Hergé fékk bara bók um hverslags afburðastarf þeir væru að vinna þarna niðri í Kongó og hversu hvíti maðurinn væri góður við villimennina sem þeim fannst þeir vera,“ segir Gísli Marteinn um bókina sem í dag þykir löðrandi í rasisma.

Gísli Marteinn bendir á að sjálfur hafi höfundurinn, eftir á, sagst hafa verið blekktur og hann hafi ekkert vitað almennilega hvernig málum var háttað í nýlendunni. Hann hafi byggt á einu heimildunum sem honum voru fengnar.

„Það gengur ekki alveg upp hjá honum vegna þess að það voru til á þeim tíma heimildir sem sögðu hina söguna en hann hefur bara ekkert verið að bera sig sérstaklega eftir því.“

Ljúft og skylt að tala um Tinna hvar sem er

Þegar Gísli Marteinn er spurður hvað valdi því að hann troði upp með Tinna-fyrirlestur sinn í hönnunarverslun bendir hann á tenginguna við Tinna-dótið sem selt er í Epal.

„Þetta gerðist bara þannig að ég var með erindi uppi í Gerðubergi um daginn og þar var þar lykilmaður úr Epal sem hlustaði á þetta, enda er hann mikill og einlægur Tinna-aðdáandi,“ segir Gísli Marteinn.

„Og af því að þau eru að selja þessa minjagripi, plakötin og þetta dót sem er náttúrlega bara hágæða hönnunarvara, þá fannst honum bara kjörið að ég myndi halda erindið þar líka, sem mér var það bæði ljúft og skylt. Ég vil tala sem mest um Tinna.“

En er Tinna-dót uppi um hólf og gólf heima hjá sérfræðingnum sjálfum?

„Það er náttúrlega hlægilegt að segja frá því að ég á pínulitla eldflaug, Tinna í skotapilsi og eitthvað þannig, og svo er ég með Tinna í Tíbet plakat uppi á vegg. Meira er það nú ekki. Þetta eru náttúrlega bara svo fallegar vörur þannig að það er sómi að þessu og einhver dýrkun á manns eigin æsku.“

Gísli Marteinn hefur mál sitt í Epal í Skeifunni klukkan 19 í kvöld og reiknar með að tala í rúma klukkustund, eða til um það bil 20.30.