Kvik­mynda­gerðar­maðurinn Gísli Darri Hall­dórs­son fékk ekki Óskarinn fyrir stutt-teikni­myndina Já-fólkið sem hann vann á­samt Arnari Gunnars­syni. Hann er í Los Angeles.

Það var myndin If Anything Happens I Love You frá Netflix sem sigraði. Auk hennar og Já-fólksins voru eftirtaldar myndir tilnefndar:

Burrow (Disney Plus/Pixar)

Genius Loci (Kazak Productions)

Opera (Beasts and Natives Alike)

Gísli spáði fyrir um sigurvegarann

Fréttablaðið ræddi við Gísla Darra fyrir helgina og þá nefndi hann einmitt sigurmyndina sem líklega.

„Það er ein mynd sem hefur fengið mesta um­fjöllun og virðist yfir­leitt vera spáð sigri, Net­flix-myndin If Anyt­hing Happens I Love You,“ segir Gísli en fjöl­miðlar á borð við New York Times og Vanity Fair spá þeirri mynd sigri. Gísli lætur það þó ekki á sig fá enda segist hann hafa verið með góða væntinga­stjórnun í gegnum allt ferlið.

Gísli Darri var í Los Angeles þegar verðlaunin voru afhent.
Fréttablaðið/Getty.

Með hörku­góða væntinga­stjórnun

Gísli Darri lýsti því hve stórt skref það væri að vera tilnefndur til þessara verðlauna. Hann sagðist við öllu búinn inntur eftir því hvernig hann mæti stöðuna.

„Ég er bara drullu­sáttur með að vera til­nefndur. Maður finnur líka bara hvað myndin hefur fengið mikinn á­huga og hvað ég hef fengið mikinn á­huga. New Yor­ker hefur tekið svo­lítið upp á sína arma að breiða út þessa mynd og verið mjög öflugir í að styðja við hana sem er bara ó­trú­lega skemmti­legt,“ sagði Gísli en tíma­ritið birti til að mynda um­fjöllun um Já-fólkið í mars síðast­liðnum.