Nýr bleikur Ópal G+ er kominn í hillur verslana en auk þess að vera sykurlaus og með saltlakkrísbragði er honum á umbúðunum talið til tekna að innihalda heilsuefnin guarana, gingseng og grænt te.
„Gingseng er orðið svolítið safnheiti og segir mér ekki mikið eitt og sér og það eru til margar tegundir af því,“ segir Sigurður Þórðarson, hjá Eðalvörum, ókrýndur gingsengkóngur Íslands.
„Gingseng er komið saman við allt mögulegt, hárnæringu, sjampó og nammi,“ heldur Sigurður, sem hefur um langt árabil flutt inn Rautt eðal gingsen frá Kóreu, þegar hann er spurður hvort gingsen þyki heppilegur bragðbætir í sælgæti.
„Mér finnst alvöru gingsengbragð gott en það er nú yfirleitt ekki verið að selja þetta út á bragðið heldur áhrifin vegna þess að gingseng er ekkert ofsalega bragðgott,“ segir Sigurður og segist telja að fólk hafi yfirleitt jákvæða tilfinningu gagnvart ginsengi.
„Ég yrði manna glaðastur ef það er eitthvað almennilegt gingseng í þessu en þá ætti maður að finna bragðið. Það er dálítið beiskt heybragð af gingsenginu,“ segir Sigurður sem hafði ekki smakkað Ópal G+ þegar Fréttablaðið ræddi við hann og komist að raun um að lakkrísbragðið ríkir yfir g-bætiefnunum þremur.