Talið er líklegt að Gillian Anderson taki að sér að leika fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, í Netflix-seríunni um ævi drottningarinnar, The Crown. 

Talsmenn Netflix hafa hvorki staðfest eða hafnað fréttum um að Anderson hafi verið ráðin í hlutverkið en fjallað hefur verið um ráðninguna á fjölmörgum erlendum miðlum. Anderson er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt sem Dana Scully í X-files.

Þriðja sería um ævi Elísabetar Englandsdrottningar verður frumsýnd á þessu ári. Þar hefur Olivia Colman tekið við hlutverki drottningarinnar af Claire Foy. Colman mun koma til með að leika drottninguna í næstu tveimur seríum af The Crown. 

Þriðja serían mun leggja áherslu á tímabilið 1963 til 1976 og mun fjórða serían líklega leggja áherslu á Thatcher-árin á milli 1979 til 1990 þar sem á sama tíma verður líklega fjallað um samband Karls bretaprins við Díönu prinsessu. Áætlað er að tökur á fjórðu seríunni hefjist næsta sumar. 

Greint er frá því á Guardian að mikið hafi verið skrifað í gegnum tíðina um samband kvennanna tveggja og hversu erfitt það á að hafa verið í forsætisráðherratíð Thatcher. En því hlutverki sinnti hún í um ellefu ár. Hvorug þeirra hefur þó nokkurn tíma tjáð sig um það og því er illmögulegt að vita hvort það sé rétt.

The Crown er ein dýrasta þáttaröð Netflix og hefur hlotið fjölda verðlauna. Netflix hefur hingað til ekki gefið mikið upp um næstu seríur og hefur engin dagsetning verið gefin upp um hvenær þriðja sería verður frumsýnd á streymisveitunni.

Greint er frá á The Sunday Times.