„Það gildir það sama um jóla­sveina og aðrar mennskar verur,“ segir Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, um mikil­vægi sótt­varna fyrir jóla­sveinana þrettán sem koma til byggða eftir rúma viku. Hann segir þá alls ekki undanskilda reglunum.

„Þeir þurfa að passa sig og fara mjög var­lega. Þeir þurfa að passa upp á tveggja metra regluna og spritta og þvo hendurnar mjög vel og vera ekki í fleiri en tíu manna hópi.

Þeir þurfa væntan­lega að vera með grímu þegar þeir fara á milli húsa?

„Já, en þeir auð­vitað eru með gott skegg sem passar mjög vel. En ef þeir geta ekki við­haft tveggja metra regluna á milli ein­stak­linga og eru í miklum þrengslum þá þurfa þeir auð­vitað að nota grímu. Þeir verða að fara eftir reglunum,“ segir Þór­ólfur.

Heldurðu að það verði gefnar út sér­stakar leið­beiningar eða reglur fyrir jóla­sveinana?

„Nei, engar sér­stakar jóla­sveina­reglur. Það gildir það sama um jóla­sveina og aðrar mennskar verur,“ segir Þór­ólfur að lokum.

Það verður kannski minna að gera hjá jólasveinunum á jólaskemmtunum í ár.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hafa upplifað ýmislegt

Rögn­valdur Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn, tekur undir það sem Þór­ólfur segir en segir jólasveinana þó vera á sérsamningi.

„Við hvetjum jóla­sveinana til að gæta að sótt­vörnum mjög vel. Það gildir það sama um þá eins og Þór­ólfur segir. Þeir verða að passa að nota grímur ef þeir eru í fjöl­menni, spritta hendur og þvo oft og reglu­lega og sér­stak­lega ef þeir setja eitt­hvað ofan í skóinn,“ segir Rögn­valdur.

Þeir fara svo á milli mjög margra húsa?

„Já, það er eitt­hvað sem við myndum ekki mæla með venju­lega, en þeir eru á sér­samningi. Þeir þekkja þetta vel. Hafa orðið vitni að ýmsum ham­förum og upp­lifað slíkan far­aldur áður. Þeir kunna að passa sig og aðra,“ segir Rögn­valdur.

Hann segir að hann óski jóla­sveinunum góðs gengis í komandi verk­efni um jólin.

„Þeir mega endi­lega hringja ef þeim vantar nánari leið­beiningar,“ segir Rögn­valdur að lokum.