Ofurfyrirsætan Gigi Hadid á von á barni ásamt kærasta sínum, tónlistarmanninum Zayn Malik. TMZ greinir frá þessu í kvöld en Hadid er að sögn komin 20 vikur á leið.

Hadid er ein þekktasta fyrirsæta heims en hún er 25 ára og hefur meðal annars setið fyrir á forsíðu Vogue og unnið fyrir Victoria‘s Secret. Malik, sem er 27 ára, hefur gert góða hluti á tónlistarsviðinu en hann sló fyrst í gegn með hljómsveitinni One Direction.

Hadid og Malik kynntust árið 2015 þegar Malik vann að gerð tónlistarmyndbands við lagið Pillowtalk. Þau hafa átt í nokkuð flóknu sambandi á undanförnum árum og hætt saman nokkrum sinnum. Þau hafa þó verið kærustupar síðan í desember síðastliðnum en þá höfðu þau verið í rúmlega árs pásu frá hvort öðru.