Einhver okkar tengja orðið „giggari” frekar við skemmtikrafta og tónlistarmenn. En heimsmyndin er breytt, störf eru að breytast og nú eru sérfræðingar líka að gigga. Þegar sérfræðinga-giggari er ráðinn til starfa, kaupa fyrirtæki tiltekna þekkingu sem passar fyrir tiltekið verkefni í tiltekinn tíma og fá lausn á því verkefni.

Á heimsvísu eru orðin gigg og gigg-hagkerfið (e.gig-work og gig-economy) orðin alþekkt og viðurkennd. Ekki síst í umræðunni um þróun og framtíð starfa, framtíðarmönnun á vinnumarkaði og stafræna hæfni. Sérfræðingar sem gigga eru partur af hringrásarhagkerfinu og breyttum kröfum einstaklinga til aukins sveigjanleika og umráða þeirra yfir eigin tíma og starfi. Hér heima eru fyrirtæki og stofnanir í auknum mæli að nýta sér þjónustu giggara. Þetta má meðal annars sjá á útboðsvefjum opinberra stofnana þar sem fjöldi giggara er fenginn í tímabundin verkefni, til dæmis í tengslum við ráðgjöf, stafræna þróun, almannatengsl, hönnun og fleira. Hér á Íslandi er eitt fyrirtæki komið á laggirnar, Hoobla ehf., sem aðstoðar fyrirtæki við að fá giggara til starfa, að byggja upp teymi með stuðningi giggara til að leysa ákveðin verkefni, auka getu innan teyma eða til að takast á við erfiða tíma þar sem ekki hentar að ráða inn í föst störf.

Ef giggari er fenginn í verkefni til að styðja við teymi eða koma með aukna þekkingu, getu eða hæfni sem vantar í teymið, næst árangur mun hraðar en án þeirra. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Það fylgja því ýmsir kostir fyrir fyrirtæki og stofnanir að ráða til sín giggara.

Þau geta hætt að kaupa þjónustu giggara jafn hratt og viðskiptin hófust og geta þannig skalað sig upp og niður innan nokkurra vikna (ekki mánaða eða ára!),Þau geta með stuttum fyrirvara létt á mönnunarvanda sínum.Lítil og millistór fyrirtæki og fyrirtæki í vexti geta skapað draumateymið mun hraðar með aðstoð giggara. Það kostar mikinn tíma og peninga að byggja upp gott teymi og skapa vöru sem selst. Ef giggari er fenginn í verkefnið til að styðja við teymið eða til að koma með aukna þekkingu/getu/hæfni sem vantar í teymið, þá gerir það að verkum að árangur næst mun hraðar en án þeirra.Giggararnir skilja eftir þekkingu þannig að fyrirtækin geta svo haldið áfram með verkefnið eða fengið giggarann til að kíkja við reglubundið til að fylgja málum eftir. Þannig geta fyrirtæki keypt þjónustu viðeigandi sérfræðings, í viðeigandi starfshlutfalli, án þess að hann sé í föstu starfi og sleppa við aukakostnað sem getur fylgt föstum starfsmanni, bæði beinum og óbeinum.

Samtök Iðnaðarins gáfu út í síðustu viku að það vanti 9.000 sérfræðinga á næstu 5 árum ef vaxtaáform fyrirtækja í hugverkaiðnaði eiga að ganga eftir.

Það að fyrirtæki og stofnanir geti fengið giggara til liðs við sig sem gætir hagsmuna fyrirtækisins, rétt eins og um hefðbundinn starfsmann sé að ræða, er mikill ávinningur. Það má jafnvel segja að það sé sambærilegt þeim ávinningi sem fæst með því að fá utanaðkomandi stjórnarmann inn í stjórn fyrirtækis. Sérfræðingur sem hefur rétta hæfni/þekkingu og kemur með rétta tengslanetið getur flýtt framþróun fyrirtækis svo um munar.

Þetta er aðsend grein frá Hörpu Magnúsdóttur í sérblaðið Mannauðsmál sem gefið var út laugardaginn 21. maí 2022.