Ghisla­ine Maxwell, sem í vikunni var dæmd í 20 ára fangelsi fyrir kyn­lífsman­sal, á ekki von á góðu þegar hún hefur af­plánun dómsins í FCI Dan­bury-fangelsinu í Connecticut.

Maxwell var ein helsta sam­starfs­kona Jef­frey Ep­stein, kaup­sýslu­mannsins al­ræmda, sem var sakaður um sví­virði­leg brot gegn ungum stúlkum.

Um er að ræða fangelsi sem skil­greint er sem lág­marks­öryggis­fangelsi en þrátt fyrir það getur Maxwell búist við ó­blíðum mót­tökum. Þetta segir Jacqueline Pol­verari, sem af­plánaði í fangelsinu í tæpt ár, í sam­tali við New York Post.

„Hún mun eiga erfiða sex til átta mánuði,“ segir Pol­verari sem segist hafa fengið skila­boð frá föngum þar innan­dyra um að „verið sé að undir­búa komu Maxwell“ í fangelsið. Segir hún að Maxwell geti jafn­vel átt von á bar­smíðum frá sam­föngum sínum.

„Konur eru verri en karlar þegar kemur að kyn­ferðis­af­brotum,“ sagði Pol­verari og bætti við að meðal fanga væru mæður ungra barna. Þegar fangi hefur af­plánun sem sak­felldur hefur verið fyrir brot gegn börnum eigi við­komandi ekki von á góðu.

Bent er á það í um­fjöllun New York Post að fangelsið sé það sama og Teresa Giu­dice, raun­veru­leika­stjarna úr þáttunum Real Hou­sewi­ves of New Jer­s­ey, af­plánaði sinn dóm í árið 2015.

Rifjar Pol­verari upp að hún hafi verið klók og verið búin að koma sér upp sam­böndum í fangelsinu áður en hún hóf af­plánun. Hún hafi notið eins­konar verndar frá valda­meiri föngum og ef Maxwell er klók muni hún gera slíkt hið sama. Það sé þó ekki á vísan að róa enda brotin sem Maxwell var dæmd fyrir mun al­var­legri en fjár­svika­málið sem kom Teresu í steininn.