Þórhildur hefur verið virk í Ungliðahreyfingu Amnesty International á Íslandi frá því hún var 15 ára gömul árið 2014, en hún verður 21 árs í sumar.

„Ég var að leita að einhverjum stað til að hafa áhrif og datt inn á Reykjavík Pride-göngu Amnesty og var að hjálpa við hana og hef verið sátt í Amnesty síðan. Þó ég hafi tekið þátt í mörgu öðru þá er þetta þar sem hjarta mitt er,“ segir Þórhildur.

Hún segir að hlutverk fulltrúa í alþjóðlega ungmennaráðinu sé að mörgu leyti að vera andlit Amnesty-ungliða út á við. „Við fáum oft rödd innan nefnda sem eru á vegum alþjóðaskrifstofunnar, til dæmis í málefnavinnu. Núna er til dæmis verið að móta nýja, alþjóðlega herferð og ungliðarnir í ungmennaráðinu fá rödd þar. Við erum nokkurs konar talsmenn ungliða innan stóra alþjóðlega batterísins.“

Var valin úr fjölda umsækjenda sem fulltrúi Evrópu

„Ég er ótrúlega spennt fyrir að byrja í ungmennaráðinu. Ég átti ekki von á að vera valin. Ég sótti um haldandi að það væri mjög langsótt, svo ég var ótrúlega glöð að fá fréttirnar. Ætli þeim hafi ekki bara litist vel á mínar hugmyndir. Ég var sérstaklega að tala um velferð aktívista. Margir aktívistar sem koma í Amnesty eru undir 18 ára. Þau gefa mikið af sínum frítíma í málefni sem getur verið erfitt að meðhöndla, eins og mannréttindabrot. Þá finnst mér sérstaklega mikilvægt að hlúa að þeim svo að þeim líði vel. Að þau geti talað um tilfinningar sínar og tekist á við þetta.“

Umsóknarferlið til að eiga kost á að vera valin í ráðið var frekar mikið að sögn Þórhildar. „Ég þurfti að senda inn skriflega lýsingu á markmiðum mínum og kynningarmyndband. Svo þurfti ég að safna alls konar meðmælabréfum frá minni deild. Fulltrúarnir eru svo valdir af meðlimum ráðsins, í samstarfi við alþjóðaskrifstofu Amnesty International.“

Í ungmennaráðinu starfa að jafnaði 16 manns. Tveir ungliðar og einn starfsmaður frá hverju heimssvæði sem Amnesty skilgreinir. Auk þess er í ráðinu einn alþjóðlegur meðlimur. Það er meðlimur sem borgar í Amnesty, þrátt fyrir að vera ekki með deild í sínu landi, eða einhver sem er af einhverjum ástæðum ekki skráður í deild innan síns lands.

Ungliðahreyfing Amnesty á Íslandi hefur starfað frá 2012 og Þórhildur hefur verið með næstum frá upphafi.

Kynnist fólki úr öllum heimshornum með ólíka sýn á lífið

Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International var stofnuð árið 2012. Hreyfingin var því frekar ný þegar Þórhildur byrjaði að starfa með henni, en hún var formaður hennar í þrjú ár frá 2016-2019.

„Ég hef verið með þeim næstum frá upphafi og það hefur verið gaman að fylgjast með hreyfingunni vaxa og taka breytingum. Hún hefur stækkað mjög mikið. Við erum svona 20 manna kjarni oftast nær, en förum alveg upp í 40. En svo eru tæplega tvö hundruð á umræðuvettvanginum okkar á Facebook. Ég hef kynnst fullt af fólki í starfinu og fengið að sitja alls konar alþjóðlegar ráðstefnur. Þar hef ég kynnst besta fólki sem ég þekki og ég hef haldið góðu sambandi við það. Þetta er besti vettvangurinn til að kynnast aktívistum alls staðar að úr heiminum og heyra reynslusögur þeirra,“ segir Þórhildur.

Í starfi sínu hjá Amnesty hefur hún kynnst fólki frá ólíkum löndum sem hefur ólíka sýn á lífið.

„Okkar sýn á mannréttindi er svo háð okkar samfélagi. Það eru hlutir sem ég hugsaði ekki áður um sem mannréttindamál, mér dettur til dæmis í hug umræður um hvort eigi að afglæpavæða eiturlyf. Umræðan hérlendis snýr svo mikið að skaða neyslunnar á einstaklinginn, en í sumum öðrum löndum, sérstaklega Suður-Ameríku, snýst þetta mikið um að vernda fólk gegn lögregluofbeldi. Það er sjónarhorn sem maður fær ekki beint á Íslandi. Það hjálpar manni að móta afstöðu sína að skilja hlið allra sem koma að málinu og hvernig mismunandi aðstæður geta haft áhrif á reynslu fólks af mannréttindabrotum.“

Þórhildur hefur starfað með ungliðahreyfingunni í mörg ár og kynnst aktívistum um allan heim. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Barðist fyrir frelsi manns sem var síðan sleppt

Þórhildur segist alla tíð hafa verið með sterka réttlætiskennd, en hún var að leita að stað til að hafa áhrif, þegar hún gekk til liðs við Amnesty.

„Þegar ég byrjaði var Amnesty í herferð gegn pyntingum. Það var meðal annars verið að berjast fyrir frelsi manns sem heitir Moses Akatugba og er frá Nígeríu. Hann var handtekinn 16 ára fyrir að stela farsímum en var svo ákærður fyrir morð. Ég var lengi að berjast fyrir því að hann yrði látinn laus. Svo fengum við þær fréttir að honum hafi verið sleppt og hann kom til Íslands til að þakka fyrir sig. Það hefur mótað mína reynslu mjög mikið, að sjá áhrifin sem maður getur haft með beinum hætti á líf einhvers,“ segir Þórhildur.

„Þetta eru svo persónuleg samtök að mörgu leyti. Maður tekur fyrir mál einhvers einstaklings sem er með nafn og andlit, en maður getur mögulega sett fordæmi fyrir aðra sem maður veit ekki af, svo þannig hefur maður áhrif á líf miklu fleiri. Um leið og maður er búinn að fá einhverja ríkisstjórn til að sleppa einhverjum einum fyrir glæp, er miklu erfiðara fyrir hana að réttlæta það að halda einhverjum öðrum inni fyrir sama glæp.“

Þórhildur er núna í stjórn Íslandsdeildar Amnesty og er yngsti meðlimurinn í stjórn. Hún segir gaman að fá að kynnast þeirri hlið samtakanna, eftir að hafa starfað lengi með ungliðahreyfingunni. Aðspurð hvort hún sjái fyrir sér að hún muni halda áfram að berjast fyrir mannréttindum í framtíðinni svarar hún:

„Ég get eiginlega ekki ímyndað mér lífið öðruvísi.“