Niðurstöður rannsóknar sem gerð var í Noregi eru þær að með því að breyta skipulagi í matvöruverslunum og auka úrval og lækka verð á ávöxtum og grænmeti sé hægt að fá fólk til að borða meira af þeim.

Það er töluverður félagslegur munur á neyslumynstri Norðmanna þegar kemur að ávöxtum og grænmeti og sterk fylgni á milli meiri neyslu á ávöxtum, berjum og grænmeti og aukinnar menntunar. Þessi munur gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að tekjulægra fólk er almennt við verri heilsu en fólk með hærri tekjur.

Ástæður sem neytendur gefa upp fyrir því að borða ekki nóg af ávöxtum og grænmeti eru mjög ólíkar og nefna þeir meðal annars lélegt aðgengi, lítil gæði, gleymsku og áhyggjur af leifum af skordýraeitri og áburði. En rannsakendur ákváðu að prófa hvort aukið úrval og aðrar breytingar í verslunum gætu fengið fólk sem annars borðaði þetta ekki, til að breyta hegðun sinni. Fjallað var um rannsóknina á vefnum Science Norway.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt að hægt sé að hafa áhrif á valkosti fólks með því að höfða til undirmeðvitundarinnar og ýta því á vingjarnlegan hátt að betri kostum. Athugað var hvort slíkar aðferðir virkuðu í fjórum norskum matvörukeðjum, KIWI, Meny, Joker og Spar. Tilgangurinn var að sjá hvort hægt væri að ýta neytendum í átt að heilbrigðari valkostum og minnka þannig félagslegan mun á heilbrigði.

Ávextir og grænmeti fengu bestu staðsetninguna í þessum verslunum og deildirnar voru staðsettar eins nálægt innganginum og hægt var, svo þetta væri það fyrsta sem þú sæir þegar þú kæmir inn í verslunina. Þessar vörur fengu líka meira pláss og tóku 15-20% af öllu plássi í búðinni. Úrvalið var um leið aukið verulega og í verslunum KIWI var einnig nokkrum sinnum boðið upp á 15% afslátt, auk þess sem boðið var upp á afsláttarkerfi fyrir ávexti og grænmeti.

Sala á sítrusávöxtum jókst mest, en svo á vínberjum, eplum og banönum. Ber urðu líka mikið vinsælli en áður og sala á salötum, tómötum og laukum jókst líka eftir að úrvalið var aukið til muna.

Alls jókst sala á ávöxtum og grænmeti um 15% frá 2015 til 2019. Mesta aukningin varð í sölu á grænmeti, 20%, en sala á ávöxtum jókst um 9%. Í verslunum KIWI jókst hún mest, um 34%.

Í þeim sýslum Noregs þar sem menntunarstigið er hæst selst rúmlega tvöfalt meira af grænmeti og ávöxtum en þar sem það er lægst. En aukningin á sölu á ávöxtum og grænmeti var hins vegar mest í þeim sýslum sem hafa lægsta menntunarstigið.

Í sýslunum með hæsta menntunarstigið jókst sala um 16%, en þar sem það er lægst jókst hún um allt að 254%. Þegar þessar tölur eru leiðréttar fyrir fólksfjölda er aukningin 11% þar sem menntunarstigið er hæst og 14% þar sem það er lægst. Rannsakendur segja að þetta sýni að hönnun matvöruverslana geti haft áhrif á neytendur sem eru ekki eins duglegir að velja hollari kosti meðvitað og segja að það sé mikilvægt að hjálpa neytendum að velja vel.