Í dag klukkan 14 fer fram fundur um líðan barna á kórónuveirutímum í Norræna húsinu. Þar ætla börn úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna að segja frá líðan sinni og umboðsmaður barna, Salvör Nordal, kynnir niðurstöður úr samvinnuverkefnum sem embættið hefur unnið með skólum landsins. Safnað var frásögnum grunnskólabarna af líðan þeirra og reynslu á þessu erfiða tímabili og þær varpa ljósi á stöðu barna í íslensku samfélagi og áhrif heimsfaraldursins á líðan þeirra.

„Við söfnuðum frásögnum fyrst vorið 2020, í fyrstu bylgjunni, og svo aftur í nóvember á síðasta ári, þegar þriðja bylgja stóð yfir,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna. „Við leituðum til grunnskólanna um samvinnu við að leita eftir frásögnum frá börnum og fengum mjög góð viðbrögð, vel á annað hundrað frásagnir, frá skólum víða af landinu og fengum því mjög fjölbreyttar niðurstöður.“

Erfiðara eftir því sem leið á

„Það var mjög skýr munur á fyrstu og þriðju bylgju. Börnin voru miklu jákvæðari fyrst, þó að auðvitað hafi ýmislegt verið erfitt þá,“ segir Salvör. „Þau nefndu jákvæða hluti eins og að það væri meiri ró yfir daglegu lífi, það hentaði mörgum þeirra betur að vera í minni hópum í skólunum og almennt var álagið minna. Það var sérstaklega talað um betri líðan, minna stress á morgnana, betri svefn og að rólegra væri heima við og í skólastofunum. Það er áhugavert, því við vitum að það er oft mikill hávaði í skólahúsnæðum og þau fundu verulega fyrir því þegar um hægðist, sem sýnir fram á mikilvægi þess að hugað sé sérstaklega að hljóðvist í grunnskólum landsins.

Þau ræddu líka neikvæð áhrif eins og að þeim þætti erfitt að hitta ekki afa og ömmu og sum þeirra höfðu áhyggjur af sínum nánustu, sérstaklega þeim sem eldri voru. Þau söknuðu tómstundastarfs líka mikið,“ segir Salvör. „Það var meiri ótti við veiruna í fyrstu bylgju, en í þeirri þriðju teiknuðu mörg börn myndir af fólki með grímur, ímynd sem situr greinilega í þeim.

Það kom skýrt fram í frásögnum barnanna og hjá ráðgjafahópnum að ástandið hefur ólík áhrif á börn í ólíkum aðstæðum og bitnar mest á þeim sem þegar standa höllum fæti í samfélaginu. MYND/AÐSEND

Síðasta vetur sáum við að það var miklu þyngra hljóð í börnunum. Þeim leið ekki eins vel og það var orðið erfiðara að vera svona mikið heima, aukin fjölskyldusamvera var jákvæð fyrst en fór síðan að reyna meira á alla, sérstaklega þegar fólk er líka að vinna heima,“ segir Salvör. „Þau höfðu líka enn áhyggjur af því að nánustu fjölskyldumeðlimir myndu smitast, sérstaklega eldra fólk, og voru farin að sakna afa og ömmu enn meira.“

Ólík áhrif á ólík börn

„Það kom líka skýrt fram í þessum frásögnum og hjá ráðgjafahópnum að aðstæður barna eru mismunandi og því hefur ástandið ólík áhrif börn eftir félagslegri stöðu, en þannig verða veikleikar og vandi þeirra sem þegar standa höllum fæti oft meiri í svona aðstæðum en annars,“ segir Salvör. „Börn sem eiga foreldra af erlendum uppruna gátu til dæmis ekki fengið jafn mikinn stuðning í náminu heima eins og þau sem eiga íslenska foreldra og þetta ástand hefur líka bitnað mikið á fötluðum börnum sem hafa sætt miklum takmörkunum á námi sínu og ekki notið nauðsynlegs stuðnings. Börn hafa líka mismunandi góða vinnuaðstöðu heima og aðgang að tölvum til að sinna fjarnámi, slíkur aðstöðumunur skiptir miklu máli.

Sérstaklega bitnaði ástandið á börnum sem eru mjög virk í félagsstarfi og tómstundum en þeim börnum sem finnst gott að vera ein og vinna í minni hópum og eru jafnvel félagsfælin hefur jafnvel liðið betur við þessar aðstæður,“ segir Salvör.

Börnin þurfa bjargráð

„Þessar frásagnir endurspegla og staðfesta margt af því sem hefur verið talað um á undanförnum árum, eins og að íslensk börn og ungmenni sofi ekki nógu mikið. Þeim leið betur og gátu sofið meira og við vitum að það er oft mjög þétt dagskrá hjá börnum og því mikil streita hjá fjölskyldum og börn gera sér betur grein fyrir því þegar álagið minnkar,“ segir Salvör. „Það er mjög áhugavert að þau finni mikið fyrir áhrifum þess að búa við minna álag og það er til marks um að það þurfi að ræða hvaða aðstæður börnum er boðið upp á. Það er til dæmis oft mikill hávaði í skólastofum og þau finna að þau geta einbeitt sér betur þegar það verður rólegra.

Það hefur líka verið mikil umræða um andlega líðan barna og unglinga undanfarin ár, bæði hér og víða erlendis,“ segir Salvör. „Það kemur skýrt fram í frásögnum barnanna að þau hafa áhyggjur af andlegri líðan sinni og að þau vilji hafa meiri aðgang að bjargráðum eins og sálfræðiþjónustu og öðru slíku. Þetta kom sérstaklega fram í þriðju bylgju, þegar börnunum leið verr.

Það er mjög mikilvægt að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu og huga betur að andlegri heilsu en áður. Ef hægt að grípa inn í snemma vinda vandamálin ekki upp á sig,“ segir Salvör. „Börn og ungt fólk voru byrjuð að kalla eftir þessu fyrir Covid og oft var þörf, en nú er nauðsyn.“

Langtímaáhrif eru líkleg

„Hér á landi var farin sú leið að halda grunnskólum opnum sem skipti öllu máli, þó að það væri með takmörkunum,“ segir Salvör. „Víða um heim hafa skólar verið lokaðir í meira en ár og við eigum eftir að sjá og meta betur hvaða áhrif lokanirnar hafa á ungmenni sem eru að ganga gegnum framhaldsskóla. Við fengum ekki frásagnir frá þeim, en framhaldsskólar voru að mestu lokaðir svo þetta ástand bitnaði meira á þeim.

Almennt séð eru það börn og ungmenni sem hafa haft það verst í þessu ástandi og upplifað mest rask á lífi sínu. Skólastarfi hefur verið raskað, sérstaklega hjá eldri börnum og um leið hefur allt félags- og tómstundastarf verið í lamasessi, þannig að börnin hafa misst af miklu í lífi sínu á mikilvægum mótunarárum,“ segir Salvör. „Þetta hefur möguleg áhrif á félagsþroskann hjá þessum hópi, ekki síst hjá þeim sem eru í framhaldsskóla og hafa ekki fengið að njóta neins alvöru félagslífs stóran hluta af þessu stutta námi. Við eigum kannski eftir að sjá frekari áhrif þessara takmarkana. Ég held að við þurfum að huga að leiðum til að fyrirbyggja neikvæð áhrif á ungt fólk til lengri tíma, með því að hlúa betur að börnum og ungmennum, tryggja þeim aðgang að nauðsynlegri þjónustu og fleiri stuðningsúrræðum.“

Eitt hentar ekki öllum

„Það er ýmislegt sem er hægt að læra af þessu og nýta í framhaldinu, en núna er fram undan að fara betur yfir þann lærdóm sem draga má af þessu og leggja mat á það hvaða mótvægisaðgerðir þurfa að koma til svo hægt sé að styðja börn og ungt fólk,“ segir Salvör. „Núna þegar við sjáum fyrir endann á Covid verðum við að hugsa um hvernig við getum styrkt börn í skólastarfi og aukið samfélagslega þátttöku þeirra.

Eitt af því sem gæti komið til álita er að auka sveigjanleikann í skólastarfinu til að mæta ólíkum þörfum ólíkra einstaklinga, því það hentar ekki öllum það sama,“ segir Salvör. „Það væri til dæmis kannski hægt að bjóða upp á eitthvert fjarnám fyrir sum börn og láta börn vinna í minni hópum eða mæta seinna í skólann. Þetta er meðal þess sem við erum að fara að ræða á fundinum í dag. Ég verð með stutta kynningu á því sem ég hef rætt hér og svo ætla fjórir fulltrúar úr ráðgjafahópi umboðsmanns barna, þau Kristjana Eldey, Júlíana Rós, Þórey María og Vilhjálmur, að ræða eigin reynslu af því að vera barn í íslensku samfélagi á tímum heimsfaraldurs.“ ■


Málstofan hefst klukkan 14 í sal Norræna hússins og henni verður líka streymt á vef Norræna hússins og vef Fundar fólksins. Það verður einnig hægt að finna streymið með því að finna viðburðinn á Facebook. Málstofan er hluti af dagskrá Fundar fólksins, sem fer fram 3. og 4. september í Norræna húsinu, Grósku og Öskju.