Ég missti tugi kílóa og öðlaðist betri heilsu með því að borða hollan og góðan mat og hlusta á hana Maríönnu,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, ástríðukokkur hjá Heilsuborg.

Þær hittust fyrst fyrir átta árum. Þá grunaði þær ekki að þær ættu eftir að vinna saman að því að leiðbeina fólki að næra sig vel og njóta þess að borða ljúffengan og hollan mat.

Maríanna er hjúkrunarfræðingur í Heilsuborg. „Allir eru einstakir, ég er aðallega í því að taka stöðuna hjá fólki, ræða við það og aðstoða það við að finna þá leið sem hentar því best, svo það nái markmiðum sínum. Sólveig tekur þetta svo lengra og kennir fólki að elda hollan mat sem er líka fallegur og bragðgóður.“

Jólastússið hefst snemma

Þær segja færast í vöxt að vellystingar jólanna færist framar og núorðið sé allt í boði frá því í byrjun nóvember. Áður byrjuðu jólin hjá Sólveigu oftast við fyrsta mögulega tækifæri. „Ég virti ekki mörkin í aðdraganda jóla og leyfði mér að borða allt sem mér þótti gott því ég hafði jú sparað mig fyrir jólamánuðinn. Ég fann ekkert endilega bragð af því sem ég kyngdi niður, missti mig oft í sælgæti og konfekti og var stundum byrjuð á þriðja konfektkassanum þegar jólin loks komu,“ segir Sólveig sem nú eldar hollan, gómsætan og litríkan jólamat af ástríðu og án þess að slaka nokkurn tíma á gæðunum. „Breytingin er algjör og mér líður auðvitað mikið betur,“ segir Sólveig. „Á þessum tíma drakk ég mikið af sykurlausu gosi en í dag drekk ég aldrei gos, enda þykir mér vatn langbesti drykkurinn. Ég vil líka hafa diskinn minn fallegan,“ segir hún hlæjandi. „Við eigum nefnilega allt gott skilið því jólin eru svo dásamleg og það er bannað að berja sig niður við að njóta þeirra.“

Betri lífsstíll með meira af hollum, næringarríkum mat

Maríanna Csillag er hjúkrunarfræðingurinn sem tók á móti Sólveigu þegar hún kom fyrst í Heilsuborg og ætlaði að fá aðstoð við að koma lífsstílnum í betra horf. „Sólveig er ein af þeim sem ætlaði að léttast á sínum eigin forsendum en komst að raun um að hennar hugmyndir voru töluvert ólíkar hugmyndum okkar fagfólksins í Heilsuborg.“ Maríanna kenndi Sólveigu að ef hún vildi léttast skyldi hún borða meira af hollum og næringarríkum mat – og smám saman myndi þá óhollustan fjara út. „Mér fannst fáránlegt að mega borða svo mikinn mat til að léttast. Gamla tuggan að borða lítið var rótgróin í huga mér, já best væri að borða eins lítið og hægt er því þá væri ég að brenna svo miklu. Ég hreinlega vissi ekki að ég þyrfti að borða til að halda mér í lagi, alveg eins og það þarf að setja bensín á bílinn til að halda honum gangandi. Auk þess hefur miklum ranghugmyndum verið plantað inn hjá okkur, eins og að bananar séu bannvara og kartöflur fitandi.“

„Einmitt, hún átti í mesta basli með að borða allan þennan holla mat,“ segir Maríanna brosandi og Sólveig tekur undir orð hennar. „Ég þurfti líka að endurskoða hugmyndir mínar um hollustu. Að borða hollt er ekki það sama og að narta í þurrt salatblað. Matur á að vera fallegur, hann á að vera góður og maður þarf að gefa sér tíma til að njóta hans,“ segir Sólveig.

En hvað með jólamatinn?

Jólin eru tími samvista og þess að njóta saman. En hvað með jólamatinn? Jólamaturinn sjálfur er ekki endilega óhollur, heldur eru það litlu hlutirnir sem bætast við, sem er gott að halda innan marka. „Sumir drekka hitaeiningaríkt jólaöl allan desember. Það getur t.d. verið góð hugmynd að sleppa gosinu nema á stórhátíðadögum,“ segir Maríanna.

Og að spara sig eða borða óreglulega getur líka haft slæm áhrif. „Margir telja sér trú um að ef þeir spari við sig mat fyrri part dagsins geti þeir átt hitaeiningarnar inni í jólaveislunni um kvöldið. Þannig virkar það ekki því líkaminn þarf bensín á tankinn allan daginn,“ upplýsir Maríanna. „Ef hann fær ekki orkuna sína fer hann í sparnaðargírinn og það getur gert illt verra.“

Þess vegna segir hún mikilvægt að borða morgunmat og hádegismat um jólin, alveg eins og alla aðra daga. „Sumir flaska á því og við það fer kerfið í hálfgert stopp, blóðsykurinn verður of lágur og líkaminn upplifir það sem hættuástand, skrúfar niður brennsluna og fer í sveltiástand.“

Út fyrir rammann um jólin

„Við þurfum að halda í kærleikann og væntumþykjuna gagnvart okkur sjálfum þótt við förum aðeins út fyrir rammann um jólin. Að áfellast sjálfan sig fyrir að borða vel um jólin gerir allt erfiðara,“ segir Sólveig og Maríanna tekur undir: „Öll eigum við okkar daga þar sem við förum út af sporinu en þá þurfum við ekki að bíða næsta dags til að gera betur heldur eigum við að fyrirgefa okkur og halda áfram. Ég nota stundum líkindamál sem lýsir þessum aðstæðum vel: Ef það springur á bílnum fer maður einfaldlega út og skiptir um dekk en sprengir ekki hin þrjú og labbar í burtu,“ segir Maríanna.

Að njóta án samviskubits

Þegar kemur að góðgæti jólanna er það oft magnið sem ræður úrslitum um niðurstöðuna. „Allt eða ekkert“ er ekki skynsamlegur hugsunarháttur. „Best er að fara hinn gullna meðalveg. Að njóta þess að fá sér konfekt, borða það hægt og halda svo áfram án þess að pæla neitt frekar í því eða þjást af samviskubiti,“ segir Sólveig.

Auðvelt sé að borða 5000 hitaeiningar á jóladögunum án þess að vita af því.

„Það er auðvitað í góðu lagi þótt einn og einn dagur sé uppfullur af orkuríkum hátíðamat en ef við sitjum þrjár til fimm jólaveislur á einni viku þurfum við að skipuleggja okkur og vera meðvituð um það sem við borðum og drekkum til að þyngjast ekki um of yfir hátíðarnar,“ segir Maríanna.

Ferskt rauðkálssalat

1 lítill rauðkálshaus

2 msk. safi úr ferskri límónu

1 lítil krukka fetaostur

Hálfur bolli fínt saxaðar döðlur

1 msk. smátt söxuð steinselja

2 tsk. vel ristuð sesamfræ

Salt og pipar

Saxið rauðkálið og setjið í skál. Blandið saman í skál olíu úr fetakrukkunni og limesafa, kryddið með pipar og salti. Saxið döðlurnar, ristið sesamfræin og blandið síðan öllu saman. Skreytið með steinselju og muldum fetaosti.

Ávaxtajólatré

Byrjið á að skera epli til að fá flatan botn og gerið holu fyrir langa gulrót. Setjið gulrótina í holuna og gætið þess að hún haggist ekki og standi bein. Setjið því næst tannstöngla í eplið og gulrótina alla leið upp á topp, heila langleiðina upp en hálfa þegar nær toppnum dregur. Dundið ykkur svo við að skreyta tréð með jarðarberjum, bláberjum, vínberjum, rifsberjum, blæjuberjum, mandarínum og kíví og til að fá græna litinn er gott að setja smávegis greni inn á milli, grænkál eða steinselju. Svona tré er dýrð á aðventunni og sem ábætisréttur á jólaborðið og gott að fá sér ís, rjóma og velja ávexti út á að vild.

Kókos- og rommkúlur

350 g döðlur

100 g pekanhnetur

50 g gott, ósætt kakó

1 ½ tsk. rommdropar (má vera meira fyrir sterkara bragð og líka nota aðra bragðdropa)

2 msk. kókoshveiti

2-4 msk. vatn (af döðlunum)

Auka kókoshveiti eða mjöl til að velta kúlunum upp úr

Leggið döðlur í bleyti í klukkustund. Hellið af þeim vatninu en haldið eftir nokkrum matskeiðum til að mýkja upp deigið. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél og vinnið vel á þeim. Bætið við hnetum og öllu hinu og vinnið í mjúkan deigklump. Deigið má ekki vera of blautt svo hægt sé að móta úr því kúlur og velta upp úr kókoshveiti eða kókosmjöli.

Sólveig Sigurðardóttir, ástríðukokkur og Maríanna Csillag, hjúkrunarfræðingur gefa lesendum heilræði í aðdraganda jóla. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Heilræði Sólveigar og Maríönnu

Maríanna og Sólveig luma á mörgum góðum heilræðum til að njóta jólakræsinga á heilbrigðan hátt.

Vatn í jólabúningi

„Á jólum eru allar könnur fylltar af malti og appelsíni en gleymum ekki að setja vatnskönnu á jólaborðið. Falleg karafla með vatni, frosnum vínberjum, jarðarberjum eða sítrónusneiðum setur fallegan svip á jólaborðið og þá þykir börnunum líka flottara og skemmtilegra að fá sér vatn en gos,“ segir Sólveig.

Magnið skiptir máli

„Margir spyrja hvort þeir geti bakað hollar smákökur. Það er rétt að í flestum tilfellum er auðvelt að minnka sykurinn en í raun innihalda allar smákökur þó sykur í einhverri mynd og fjölda hitaeininga. Þetta er því alltaf spurningin um magn og að vera meðvitaður um magnið þegar maður gæðir sér á smákökum eða öðrum sætindum. Tólf konfektmolar telja til dæmis. jafn margar hitaeiningar og góður, grillaður lax með fetaosti, avókadói og grænmeti,“ segir Maríanna.

Sérstakt heilræði fyrir Söru-aðdáendur

Fyrir Söru-aðdáendur er gott að miða við tvær til þrjár Sörur á mann í hvert skipti og ráð að frysta nokkra skammta í box frekar en að setja þær allar á einn disk á jóladag,“ segir Maríanna.

Stress kallar á óhollustu

Fyrir jólin er annríki hjá mörgum.

„Þegar við erum stressuð höfum við tilhneigingu til að velja skyndibita frekar en hollan mat. Og stressið getur líka valdið því að við sofum illa. Þegar við erum þreytt og illa sofin sækir líkaminn í skyndiorku – í óhollari mat. Við þurfum því að hlúa vel að okkur og ekki bara um jólin heldur alla daga ársins því þegar fólk á við þyngdaraukningu að stríða er vandamálið ekki á milli jóla og nýárs heldur á milli nýárs og jóla,“ segir Maríanna.

Afgangarnir geta beðið

Svo eru það allir afgangarnir eftir hátíðamatinn.

„Margir vilja ekki að afgangar fari til spillis og hamast við að borða þá yfir hátíðarnar. En við þurfum ekki að klára svínasteikurnar og hangikjötið; það er sniðugt að setja afgangana í frysti og geta gripið í þá á venjulegum degi í janúar eða febrúar.

Holli jólamaturinn

Þótt jólin séu tími allsnægta við matarborðið segir Maríanna margt hollt við jólin.

„Til dæmis graflax og mandarínur. Laxinn er stútfullur af hollri fitu og mandarínurnar af C-vítamíni. Og þegar kemur að sjálfum jólamatnum er svo margt hollt, eins og Wellington-steik eða kalkúnn með góðu meðlæti. Og ekki má gleyma því að oft eru til hollari útgáfur, t.d. af meðlætinu.

Ekki gleyma hreyfingunni

Yfir hátíðarnar er gott að finna hreyfingu sem fjölskyldan getur stundað saman.

„Á aðfangadag í fyrra fór ég upp himnastigann í Kópavogi. Jólin eru svo dásamlega fallegur tími fyrir útiveru og manni líður svo miklu betur að setjast að jólaborðinu eftir góða hreyfingu,“ segir Sólveig sem er formaður sjúklingaráðs ECPO, Evrópusamtaka fólks með offitu, en í þeim eru 34 Evrópulönd.

„Við viljum ekki að fólk tali niður til okkar eða um það að við séum offitusjúklingar því við erum ekkert endilega sjúklingar þótt við séum í mismunandi þyngd,“ segir Sólveig, sem hefur öðlast nýtt líf eftir árin í Heilsuborg.

„Því fyrr sem maður tekur ábyrgð á eigin heilsu, því betra. Það þýðir þó ekki að fara sér að neinu óðslega og alltaf er ráðlegt að leita aðstoðar fagfólks á heilbrigðissviði,“ segir Sólveg sæl.