Kolbrúnu er margt til lista lagt. „Ég er myndlistarkona, útskrifaðist frá konunglegu listaakademíunni í Den Haag árið 2017 og hef aðallega verið að vinna með myndbönd síðan þá. Undanfarið hef ég verið að safna efni, myndböndum, hlutum, ljósmyndum og hugmyndum sem eiga svo eftir að raðast einhvern veginn saman.“

Pólitíska og heilagleiki

Hún er nýkomin úr ferðalagi og tók nýverið ákvörðun um að hætta að prjóna. „Ég var að koma frá Bolungarvík þar sem ég var í tvær vikur að taka upp og flandra. Annars er ég með breitt áhugasvið, sem virkar ekki nema að þú getir einbeitt þér að einhverju einu í einu. Ég er nýbúin að fullkomna mig í prjónaskap og hef ákveðið að hætta á toppnum og er farin að einbeita mér að öðru.“

Hefurðu mikinn áhuga á tísku?

„Já, mér finnst skemmtilegt hvað tíska er alltaf í þróun og hvað hún segir mikið um ákveðinn tíðaranda. Ég held að hugmyndir um tísku verði alltaf til einhvers staðar annars staðar en hjá henni sjálfri. Tíska getur líka verið pólitísk en getur svo líka verið notuð gegn fólki að ákveðnu leyti og ég held að það sé mikilvægt að þekkja muninn.“

Kolbrún segir áhugann á tísku hafa kviknað á sínum yngri árum. „Ég held að tískuáhuginn hafi byrjað þegar við vinkonur mínar byrjuðum að klæða okkur upp saman og ég fattaði að það væri heilög athöfn.“

Kolbrún Lilja segir sinn helsta veikleika vera skó. Þegar hún finnur hið fullkomna par verði hún ástfangin og allt annað hætti að skipta máli.

Töfrar í hverjum þræði

Kolbrún segir uppáhaldsflíkina sína búa yfir miklum töframætti. „Uppáhaldsflíkin er svartur samfestingur sem mamma keypti handa mér í Berlín fyrir kannski tíu árum síðan. Hann virkar mjög venjulegur við fyrstu sýn en er svo allt nema og allir sem fara í hann verða á einhvern hátt ómótstæðilegir. Ég hef aldrei átt leiðinlegan dag í þessum samfestingi og hann varð á tímabili eign vinkonuhópsins. Vinkona mín útskrifaðist í honum og önnur kynntist manninum sínum þegar hún var í honum þannig að það eru svo sannarlega töfrar í hverjum einasta þræði.“

Hvaðan færðu innblástur?

„Innblástur getur komið hvaðan sem er en ef ég ætla að nefna eitthvað þá verð ég alveg ástfangin af bíómyndum. Ég var með þráhyggju fyrir bíómyndinni The Color of Pomegranates, sem er sovésk mynd frá 1969, í langan tíma sem ég fékk alls konar tískutengdan innblástur frá,“ segir Kolbrún dreymin.

„Svo er ég með leikstjóra sem heitir Rainer W. Fassbinder á heilanum. Sérstaklega mynd eftir hann sem heitir The Bitter Tears of Petra Von Kant, sem er æðisleg mynd frá 1972 þar sem fatnaðurinn leikur risastórt hlutverk í allri persónusköpuninni. Ég held líka að maður taki meira eftir því hverju aðrir klæðast heldur en maður gerir sér grein fyrir. Ég fæ mikið af mínum innblæstri frá fólkinu í kringum mig.“

Áttu þér einhverja tískufyrirmynd?

„Já, Winonu Ryder.“

Áttu þér uppáhaldshönnuð?

„Ég er mjög hrifin af belgískum hönnuði sem heitir Walter Van Beirendonck. Hann er einhvers staðar mitt á milli þess að vera hönnuður og listamaður. Ég er líka sérstaklega hrifin af Soniu Rykiel af því að hún er svo frábær, Rei Kawakubo hjá Comme Des Garcons og svo mætti áfram telja.“

Kolbrún Lilja segist ekki geta unað sér við ljót snið sem gjarnan einkenni skynditísku. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR

Ljót og óviðunandi snið í skynditísku

Blaðamaður spyr Kolbrúnu hvort hún eyði miklu í föt. „Já og nei. Smekklegt fólk getur fundið sér föt alls staðar og gerir það. Mér finnst hins vegar ekki leiðinlegt að eyða peningum í föt, það er eiginlega eitt af því skemmtilegasta sem ég geri, en það verða þá að vera skemmtileg föt og þess virði, mér finnst ég aldrei finna mér neitt í búðum sem selja skynditísku, mér finnast sniðin ljót og efnin ömurleg og við það get ég ekki unað,“ segir Kolbrún, alvarleg í bragði.

„Síðast keypti ég mér hvít gallajakkaföt, Bonne Suits, frá Amsterdam. Þú getur verið í buxunum allan daginn og farið svo í jakkann yfir og þú ert tilbúin fyrir leikhús, út að borða eða á barinn.“

Hver er þinn helsti veikleiki þegar kemur að tísku og útliti?

„Minn helsti veikleiki þegar kemur að tísku eru fallegir skór. Þegar ég sé hið fullkomna skópar er það eins og að verða ástfanginn og allt annað hættir að skipta máli. En svo er ég líka ilmvatnsfíkill og safna alls konar ilmvötnum sem fara mér vel. Það er mjög gaman þar sem ég á heima í göngufæri við Madison sem er ein uppáhalds búðin mín í heiminum.“

Notar þú fylgihluti og skart?

„Ég geng með úr og eyrnalokka. Það allra flottasta sem ég veit er þegar fólk á úr til skiptanna. Ég stefni að því. Get heldur ekki beðið eftir því að geta byrjað að nota gleraugu.“

Hvar kaupir þú helst föt?

„Mér finnst alltaf gaman að róta í second hand-búðum og finn flest betri fötin mín þannig. Finnst sérstaklega gaman að róta í Belgíu og gerði mikið af því þegar ég var í námi og held að mikið af mínum uppáhaldsflíkum hafi ég fundið þar. Ég prjóna líka og sauma mikið á mig sjálf og breyti fötum sem ég er ekki alveg sátt við.“

Hvað er fram undan hjá þér?

„Fram undan hjá mér í haust er að hella mér í listina. Vinkona mín var að flytja til Íslands og ætlar að deila með mér vinnurými og það verður eitthvað spennandi. Er með fullt af verkefnum og hugmyndum sem þurfa að komast í framkvæmd og hlakka til að fara inn í veturinn full af innblástri og orku.“