Gestir stórtónleika rokksveitarinnar Guns N' Roses á Laugardalsvelli á morgun eru hvattir til þess að mæta tímanlega til að forðast raðir og nýta sér virka ferðamáta. Völlurinn opnar klukkan 16.30 en skömmu eftir það stígur hljómsveitin Brain Police á svið áður en Axl Rose, Slash og félagar í rokksveitinni goðsagnakenndu taka við.

Boðið verður upp á sérstakar hraðferðir Strætó frá þremur stöðum í borginni og beint niður í Laugardal. Þessar hraðferðir munu fara frá Háskólanum í Reykjavik, Mjóddinni og Strætóstoppitöðinni norðanmegin við Kringluna (hjá Orkunni). 

Sömu leiðir munu fara frá Laugardalshöll við Suðurlandsbraut og til baka eftir tónleika. Miðahafar á tónleikana fá frítt í þessar ferðir gegn framvísun miða.

Þá eru bílastæðin í kringum Laugardalshöllina opin en til þess að leggja þurfa að vera fjórir eða fleiri miðahafar í bíl. Tónleikahaldar mælast þó til þess að fólk leggi á bílastæðinu við Sjóvá og fyrir aftan Verslunarskólann.

Reykjavegur verður lokaður fyrir og á meðan tónleikum stendur og þá verður Engjavegur lokaður frá klukkan 16 nema fyrir tónleikagesti. Suðurlandsbraut verður lokuð að hluta eftir að tónleikum lýkur.