„Þetta er ekki óþekkt. Svona lagað hefur gerst áður,“ segir Víðir Arnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Domusnova, um mynd sem birtist í fasteignaauglýsingu á vegum fyrirtækisins.

Á samfélagsmiðlinum Reddit hafa skapast umræður um óvæntan aðskotahlut á mynd af baðherbergi fasteignarinnar Þinghólsbrautar 37 í Kópavogi. Á mynd af baðherberginu sést hvar gervilimur hangir á baðkarinu.

Víðir segir við Fréttablaðið að ákveðið hafi verið að afmá liminn af myndinni, sem að hans sögn inniheldur sápu. „Okkur fannst þetta sniðugt en af virðingu við seljandann þá ákváðum við að laga þetta,“ segir hann kíminn.

Víðir segist enga trú hafa á að þetta hafi áhrif á seljanleika eignarinnar en málshefjandi á Reddit segir að baðherbergið höfði ef til vill meira til kvenkyns kaupenda. Víðir er mjög bjartsýnn á að eignin seljist hratt og vel. „Það er opið hús núna á eftir. Við klárum þetta sennilega í kvöld.“

Taka má frá að íbúðin er á jarðhæð og því ekki með risi.