Sayed Hashem Qureshi flúði til Íslands frá Afganistan við upphaf kórónaveirufaraldursins og var fyrsti gesturinn á sóttkvíarhóteli Rauða krossins. Nú er hann starfsmaður þar og hjálpar fólki sem er í sömu sporum og hann var áður. Hann segir að þar með hafi draumur ræst.

Talibanar gerðu árás um nótt

„Í Afganistan rákum við bróðir minn gistihús og við ákváðum að kenna börnum og konum ensku þar á kvöldin í sjálfboðastarfi, því margir hafa ekki efni á slíku námi. En vandamálið var að svæðið sem gistihúsið var á var undir stjórn talibana á næturnar,“ segir Sayed. „Þeir bönnuðu okkur að halda áfram að kenna og sögðu að við værum að snúa fólki frá íslam og að vestrænni menningu, sem var auðvitað ekki satt.

Við héldum að við værum öruggir en því miður versnaði ástandið og eina nóttina gerðu þeir árás á heimili okkar. Þeir bönkuðu á dyrnar og um leið og bróðir minn opnaði myrtu þeir hann þar sem hann stóð. Svo brenndu þeir gistihúsið okkar,“ segir Sayed. „Faðir minn hafði eytt ævinni í að mennta okkur bræðurna og gat ekki hugsað sér að missa mig líka, svo hann sagði mér að flýja, sama hvað það kostaði. Ég yfirgaf því heimilið mitt og hef ekki snúið aftur. Ég skildi eiginkonuna mína, föður minn og þrjú börn bróður míns eftir. Nú stjórna talibanar öllu landinu og þeir hafa bannað enskukennslu í skólum og bannað stúlkum að ganga í skóla.

Ástæðan fyrir því að ég kom til Íslands er sú að faðir minn vildi að ég færi til lands sem myndi ekki senda mig aftur til Afganistan og Ísland var eina landið sem kom til greina,“ segir Sayed. „En fjölskyldan mín glímir enn við mikla erfiðleika og ég vona innilega að þau komist hingað. Konan mín á mjög erfitt og ég hef miklar áhyggjur af henni. Henni hefur liðið illa síðan ég flúði og hún glímir við kvíðaköst eftir árásina. Það er líka mjög erfitt að vera kona í Afganistan núna og hún hefur engan stuðning. Ég hef líka miklar áhyggjur af bróðursonum mínum, þeir eiga engan annan að og ég er að reyna að ættleiða þá.“

Fór strax í sjálfboðastarf

„Eftir þetta átti ég mjög erfitt og þjáðist af áfallastreituröskun, en ég hef getað talað við sálfræðing og jafnað mig, þökk sé Rauða krossinum,“ segir Sayed. „Það opnaði dyr fyrir mig sem gerði mér kleift að halda áfram að lifa.

Erfiðasti tíminn var þegar ég kom fyrst til Íslands og leitaði til lögreglunnar til að sækja um hæli hér,“ segir Sayed. „Lögreglan setti mig á sóttkvíarhótelið, en það leið vika þangað til ég komst að því að ég væri í sóttkví, fram að því hélt ég að þetta væru flóttamannabúðir.“

Sayed segir að það sé algjör draumur að fá að vinna fyrir Rauða krossinn og að hann sé gríðarlega þakklátur íslensku þjóðinni. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Sayed segir að dvölin þar hafi verið erfið, en að starfsfólk hótelsins hafi auðveldað hana.

„Bara það að tala við fólkið þegar það fær mat og láta það vita að þú sért til staðar breytir miklu. Það er svo gott að vita að það er hjálp til staðar ef þörf krefur og þetta er það sem ég geri fyrir gestina á hótelinu núna,“ segir hann. „Vð pössum upp á að fólki líði ekki illa og reynum að auðvelda því lífið.

Það var erfitt að vera einn og innilokaður á sóttkvíarhótelinu dögum saman eftir allt sem ég hafði gengið í gegnum, en einn morguninn opnaði ég dyrnar og þá var þar einstaklega indæl eldri kona sem var að koma með morgunmat handa mér,“ segir Sayed. „Á þessum tíma þorðu margir ekki út úr húsi af ótta við heimsfaraldurinn en þarna var hún hugrökk í sjálfboðastarfi að hjálpa mér, þó að hún þekkti mig ekki neitt. Þá hugsaði ég með mér að ef hún gæti hjálpað þá gæti ég það líka, þannig að ég ákvað að fara í sjálfboðastarf fyrir Rauða krossinn um leið og ég gæti. Um leið og ég losnaði úr sóttkví fór ég svo að kenna flóttamönnum ensku.“

Draumur að vinna fyrir Rauða krossinn

Það er starf sem hentaði Sayed vel, því tungumál hafa alltaf legið vel fyrir honum og hann talar sex; pashto, úrdú, arabísku, ensku og tvö staðbundin tungumál frá Afganistan. Hann er líka að læra íslensku núna. Örfáum dögum eftir að Sayed fékk íslensku kennitöluna sína var honum svo boðið launað starf hjá Rauða krossinum.

„Það var algjör draumur,“ segir hann. „Þá voru liðnir næstum fimm mánuðir síðan ég var á sóttkvíarhótelinu en Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsanna, hafði uppi á mér til að bjóða mér starfið. Ég hafði alls konar reynslu sem Rauði krossinn gat nýtt og ég greip að sjálfsögðu tækifærið til að endurgjalda Rauða krossinum alla ómetanlegu aðstoðina.

Ég spurði ekki einu sinni hvort þetta væri launað starf, ég var bara ánægður með að fá að leggja Rauða krossinum lið, en svo reyndist þetta vera launuð vinna,“ segir Sayed. „Það hafði verið draumur minn að klæðast einkennisbúningi Rauða krossins og hjálpa öðrum, það gefur manni ánægju sem hverfur aldrei.“

Gylfi Þór er hetja

„Gylfi Þór er einstakur maður sem er orðinn fyrirmyndin mín. Hann hefur hjálpað mér í gegnum alla mína erfiðleika og var alltaf til staðar. Ég vil þakka honum innilega frá dýpstu hjartarótum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig og alla aðra,“ segir Sayed. „Hann er algjör hetja sem hefur staðið vaktina í framlínunni allan tímann og lagt allt í vinnuna sína. Ég get ekki þakkað honum nóg.

Ég er líka bara mjög þakklátur allri íslensku þjóðinni. Þetta er besta þjóð í heimi. Það er augljóst þegar maður ferðast um heiminn og kynnist aðstæðum annars staðar. Nú er þetta heimili mitt og mér líður eins og ég hafi alltaf búið á Íslandi,“ segir Sayed að lokum. ■