Á Íslandi fór verslunin Vistvera að selja tannkremstöflurnar Denttabs í júní 2018. Síðan þá hafa fleiri verslanir farið að flytja inn tannkremstöflur sem eru upprunalega frá Þýskalandi. Kristín Inga Arnardóttir, einn aðstandenda Vistveru, segir að hún hafi byrjað að nota tannkremstöflurnar fyrir einu og hálfu ári. „Ég fór til tannlæknis um daginn og hann hefur aldrei áður hrósað mér fyrir að vera með mjög lítinn tannstein. Ég sagði honum að ég væri að nota annað tannkrem en vanalega, þessar töflur. Þannig að mér finnst þær virka vel.“

Skrýtið fyrst

Það getur verið erfitt að venjast tannkremstöflunum fyrst en í dag segir Kristín að sér finnist óþægilegra að nota túputannkrem. „Maður setur eina töflu í munninn og bryður hana. Svo tannburstar maður og skyrpir í vaskinn. Sumum finnst þetta pínu skrýtið og eiga erfitt með að venjast þessu. En eftir einhvern tíma fer manni að finnast þetta þægilegra en hitt.“

Það getur verið erfitt að venjast tannkrems-töflunum en Kristín segir að sér finnist óþægilegra að nota túputannkrem.

Denttabs framleiða bæði tannkremstöflur með og án flúors sem uppfylla skilyrði þýskra tannlæknasamtaka um gæðatannkrem. Tannkremstöflurnar voru fyrst hannaðar á árunum eftir aldamót. Vinsældir þeirra urðu hins vegar ekki verulegar fyrr en vitundarvakning um minnkandi plastnotkun hófst. Hjá Vistveru eru töflurnar seldar eftir vigt, þannig að fólk getur komið með eigin ílát og fyllt á. „Það þarf bara að passa að geyma töflurnar í lokuðu íláti, annars geta bragðefnin gufað upp,“ en þær eru allar með hefðbundnu mentólbragði.

Silkitannþræðir gera gott gagn fyrir tennurnar

Fyrir þá sem vilja gera tannhirðuna nánast alveg plastlausa, er líka hægt að kaupa bambustannbursta og silkitannþráð. „Þá er skaftið á tannburstanum úr bambus en hárin eru oftast úr nælonefni. Það er eiginlega vonlaust að hanna tannbursta sem er alveg 100% plastlaus. En það er auðvitað mun minna plast í bambustannburstum heldur en hefðbundnum tannburstum.“ Kristín segist hafa heyrt að sumir bregði á það ráð að taka nælonhárin úr með töng eftir að hafa hætt að nota tannburstann. „Þá er hægt að setja bambusskaftið bara út í garð þar sem það eyðist svo upp í náttúrunni.“ Silkitannþræðirnir eru sömuleiðis fljótir að brotna niður í umhverfinu.

Alls kyns hlutir fyrir rakstur úr stáli.

„Það eru rosalega margir að reyna að minnka plastnotkun og það eru margar leiðir til þess. Það er lítið mál að byrja að gera baðherbergið plastlaust,“ segir Kristín. Það er hægt að kaupa sjampóstykki í staðinn fyrir sjampó í plastbrúsa, eyrnapinna úr bambus, 100% arganolíu sem er seld eftir vigt og svo eru komnir svitalyktareyðar í korki. Þá er hægt að fara með korkinn út í garð eftir að maður er búinn að nota hann.

Borgar sig á endanum

Þar að auki er í boði að kaupa rakvélar úr stáli í staðinn fyrir plastrakvélar og viðarklósettbursta. „Við erum komnar með áfyllingarbar þannig fólk getur fyllt á sjampó, hárnæringu og allskonar andlitskrem í sín eigin ílát.“ Kristín nefnir líka túrnærbuxur og fjölnota dömubindi úr lífrænni bómull, sem eru nýlega farin að hasla sér völl á íslenskum markaði. „Það borgar sig á endanum að kaupa slíkt, á endanum ertu að spara peninga með því. Við erum líka með fjölnota bómullarklúta og heklaða klúta til að þvo andlitið.“

Ekkert plast hér heldur bambus.

Kristín segir að vistvænar baðvörur séu með fáum innihaldsefnum sem geta verið ertandi fyrir viðkvæma húð og hár. „Við höfum alveg heyrt að fólk með svakalega viðkvæman hársvörð eða kannski psoriasis-exem komi og kaupi sjampóstykki hjá okkur af því að það er lítið af aukaefnum í þeim.“