Ekkert er því til fyrirstöðu að gera baðherbergið að notalegu og fallegu rými þar sem gott er að setjast niður og hugsa sína þungu þanka, þar til einhver fer að banka. Baðherbergið er líka oftar en ekki eini staðurinn þar sem barnmargir foreldrar fá einstaka sinnum stundarfrið.

Meira samhengi, minna kraðak

Ein leið til þess að fríkka upp á baðherbergið er að vera með baðherbergisvörur í stíl, það er tannburstaglas, handsápupumpu, box fyrir bómullarskífur og fleira. Því meira samhengi sem er í baðherbergishlutunum því minna verður kraðakið. Þarf svo í alvöru að vera með sjö mismunandi hálftóma sjampóbrúsa víðs vegar um sturtuna? Þegar allt kemur til alls, þá er sjampó, fjandinn hafi það, yfirleitt bara sjampó. Nema um flösusjampó eða sérstök meðferðarsjampó sé að ræða. Ef þú ert með nokkra brúsa af sömu gerðinni þá er alls ekkert að því að sameina hársápuna í einn brúsa. Og enn fremur, þá er langoftast hægt að sameina nokkrar mismunandi tegundir saman í einn brúsa. Ef þú vilt nýta tækifærið til þess að gera sturtuna enn meira aðlaðandi þá geturðu sameinað alla hársápuna í eina fallega sápupumpu. Sama er jafnvel hægt að gera með hárnæringarbrúsana og sameina í pumpu í stíl.

Allt er vænt sem vel er grænt

Plöntur gera kraftaverk fyrir þreytt herbergi. Ef baðherbergið fær mikla náttúrulega birtu þá er hægt að vera með næstum hvaða plöntu sem er inni á baðherberginu, svo lengi sem hún þolir raka. En ef baðherbergið er alger myrkrakompa þá eru líka til plöntutegundir sem þurfa litla birtu. Einnig eru til lausnir til þess að þekja vegg eða hluta úr vegg með mosa, sem kemur virkilega skemmtilega út. Og ef þú ert ekki með græna fingur og plöntur valda þér engu nema kvíða, þá er ekkert að því að finna eðlilegt gerviblóm og planta því inn á baðherbergið.

Gerðu það notalegt

Mjúk og hlý baðmotta í fallegum lit gerir gæfumuninn fyrir köld flísalögð gólf. Svo er einnig gott ráð að eiga baðmottu til skiptanna. Tvær eða fleiri baðmottur á heimilinu gera gæfumuninn þegar margir eru saman um eitt baðherbergi. Því það er fátt minna óaðlaðandi en að stíga á rennblauta baðmottu eftir síðasta sturtugest, hvað þá þegar það gerist á sokkaleistunum.

Kerti eru til margs nýtileg, gefa frá sér notalegan bjarma, sum gefa frá sér góða lykt og eldspýturnar eru ekki síður hentugar á baðherbergið. Mynd/Getty

Hafirðu tök á því að næla þér í handklæðaofn og setja upp á baðherberginu, þá er hér um að ræða hlut sem þú munt aldrei vilja vera án framar. Ofninn hitar upp handklæðið á meðan þú sturtar þig á morgnana og þerrar uppáhalds kasmírpeysuna svo að hún verður orðin þurr daginn eftir, þó svo hún hafi verið rennandi blaut eftir þvott kvöldið áður.

Að lokum má koma fyrir vellyktandi ilmkerti og eldspýtustokk inni á baðherberginu. Þá er hægt að kveikja á því hvenær sem er, til dæmis þegar þú gefur þér tíma í freyðibað eða tekur fæturna í gegn. Svo má benda á að þegar kveikt er á eldspýtu gefur hún frá sér hina fullkomnu lykt til þess að hylma yfir yfirþyrmandi iðrastækju.

Frestaðar framkvæmdir

Var baðherbergið næst á framkvæmdalistanum en hefur nú frestunaráráttan tekið við? Átti aldeilis að taka baðherbergið í gegn í ár og endurflísaleggja, skipta um baðkar og vask, mála loftið en verður aldrei neitt úr neinu? Það eru til ýmsar tímabundnar lausnir sem hægt að gera í millitíðinni við þreytt baðherbergi sem kosta ekki gífurlegar framkvæmdir, steypuryk eða slíta gat á budduna. Sé loftið orðið upplitað og gult af elli þá er vel hægt að skella málningarumferð á það án þess að það kosti formúu. Skjannahvítt loft endurkastar ljósi og birtir upp á köldustu myrkrakompur.

Hafðu í huga að ljósgjafi sem lýsir eingöngu ofan frá getur gert fallegustu andlit að innsokknum höfuðkúpum. Ef þú þolir ekki að sjá þig í speglinum á morgnana, þá er kannski kominn tími til að fjölga ljósgjöfunum og koma tveimur fyrir, sínum hvorum megin við baðherbergisspegilinn. Passaðu bara að hafa ljósið ekki allt of skarpt og bjart. Það þarf enginn að halda nákvæma talningu á hrukkunum, eða geta mælt dýpt svitaholanna.

Svo er alltaf hægt að skella einni málningarumferð á veggina. Hvað litaval varðar, hvort sem um veggi er að ræða eða annað, þá er það góð þumalputtaregla að heitir litir eins og gulir, appelsínugulir og rauðir litir eru æsandi á meðan kaldir litir líkt og bláir og grænir eru róandi. Ef þú vilt að baðherbergið sé eins og skyndibitastaður, þar sem fólk neytir í skyndi og drífur sig svo út, þá velurðu heita liti. En viljir þú njóta einverustundarinnar sem góð og gjöful klósettferð veitir, þá er um að gera að leita í köldu litina.

En hvað skal til bragðs taka ef flísarnar á baðherberginu eru herfilega ljótar? Það eru sem betur fer ekki allir með sama smekk og það eru heldur ekki allir með góðan smekk. Ýmsu má þó bjarga, jafnvel appelsínugulum og brúnum seventís flísum. Það eina sem þú þarft er rétt málning, smá tími, þolinmæði og örlítil hjálp frá fagaðila. Því það er ekki nóg að skella bara hvaða málningu sem er yfir flísarnar og kalla það gott. Það er líklegt að það þurfi að sanda niður efsta lag flísanna og mála svo með grunni áður en nýjum lit er makað á. Starfsfólk málningarvöruverslana geta gefið góð ráð við að mála flísar.