Daníel Ómar Hauksson gefur út tónlist undir listamannsnafninu Drómi.

„Það nafn lýsir mér mjög vel þar sem orðið kemur frá að vera „draumóri“. Mig dagdreymir mikið og á marga drauma og markmið sem mig langar að ná. Til dæmis þegar það kemur að tónlist, tölvuleikjagerð og kvikmyndagerð,“ útskýrir hann.

Daníel segist hafa verið kominn á unglingsaldur þegar hann byrjaði fyrst að skapa tónlist.

„Ég var ekki alinn upp í kringum mikla tónlist og spilaði ekki á hljóðfæri. Mamma mín hlustaði mikið á Nýdanska og pabbi á rokkið.“

Daníel segist hafa gengið í gegnum ýmislegt í þessu lífi og þráði hann einhverja leið til að tjá líðan sína.

„Ég hef gengið í gegnum ýmislegt í þessu lífi og ég þráði einhvers konar leið til að tjá hvernig mér leið. Ég byrjaði þannig að skrifa texta í lok 2016. Ég fékk mikla ástríðu fyrir tónlist og ég bara ætlaði að verða tónlistarmaður. Ég hafði samt engan bakgrunn eða neina hæfni til þess. Þannig ég æfði mig á hverjum einasta degi, alveg sama hvað fólki fannst um tónlistina.“

Fréttablaðið/Anton Brink

Einlægir textar

Núna segist Daníel orðinn stoltur af útkomunni og aukinni færni. Hann segist duglegur að prófa sig áfram.

„Þá til dæmis hvernig texta ég skrifa. Er ég að gera textana f lata og „basic“ eins og allir aðrir eru að gera? Mér finnst mikilvægt að vera hreinskilinn í mínum textaskrifum og segja einhverja sögu eða pælingar,“ segir Daníel.

„Þessi plata sem ég er að gefa út þarnæsta föstudag er sjö laga „concept“ plata sem segir ákveðna sögu frá upphafi til enda. Ég passa að offóðra ekki þannig að það sé rosa áberandi fyrir þá sem hafa ekki áhuga á lögum sem segja sögu. En fyrir þá sem rýna í textana, þeir geta heyrt þessa sögu þróast.“

Lagið Úthald kemur út, líkt og áður kom fram, á föstudaginn. Það fjallar um tímabil í lífi Daníels fyrir tveimur árum, þegar hann gekk í gegnum sambandsslit. Gerir upp erfitt tímabil á nýrri plötu Daníel Ómar byrjaði fyrst að skrifa texta sjálfur undir lok ársins 2016.

„Ég var þannig týpa, sem bendir á alla aðra nema sjálfa sig, sár og lætur það bitna á öðrum. Í gegnum plötuna sjáum við týpuna sem byrjar að líta inn á við, biðjast afsökunar og að taka ábyrgð á hegðun sinni,“ útskýrir Daníel.

Fréttablaðið/Anton Brink

Fær innblástur víða

Úthald er annað lagið á plötunni og er það raunverulega byrjun á sögunni.

„Það er „pródúserað“ af Mími Bodinaud og Úlfi Ingólfssyni, sem gengur undir listamannsnafninu Trudzer. Aðkoma þeirra að laginu er svo frábær og við vorum í rúmlega hálft ár að klára það og svo tóku við nokkrir mánuðir þar sem Mímir var að að hljóðblanda það og fínpússa.“

Daníel segist fá innblástur víða.

„Ég fæ alls staðar innblástur. Til dæmis frá tónlist hérna í senunni, kvikmyndum, sjónvarpsþáttum. En ég fæ líka innblástur frá því að hvetja aðra og segja sögur um fólk. Ég fæ innblástur frá fólkinu í kringum mig. Ég mun alltaf líta upp til tónlistarmanna sem fjalla um falleg og djúp þemu. En ég elska líka tónlist sem er engin pæling á bak við og get notið þess vel.“

Finnst þér auðveldara að tjá erfiðar tilfinningar með tónlist?

„Alveg hundrað prósent, þó ég ítreki að það er sjúklega mikilvægt að geta tjáð sig við sína nánustu og tala um hluti sem eru erfiðir eða eftir áföll. En að geta komið tilfinningunni sjálfri og geta séð aðra finna fyrir henni eru galdrar tónlistarinnar.“

Úthald kemur út 11. júní og platan viku seinna, þann 18. júní.

„Svo langar mig ótrúlega mikið að halda útgáfupartí fyrir plötuna og get ímyndað mér að fólkið þyrsti í tónleika.“