Theodóra hlaut BA-gráðu í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og MA-gráðu frá Royal College of Art í London 2015. Hún hefur síðan þá að mestu starfað í London en er þó að eigin sögn alltaf með annan fótinn á Íslandi líka. „Ég ílentist í London eftir mastersnámið en kem reglulega heim til dæmis til að taka þátt í HönnunarMars eða til að kenna,“ segir Theodóra.

Á fyrirlestrinum sem hefst klukkan 12.15 í dag í húsnæði Listaháskóla Íslands við Þverholt hyggst Theodóra gefa nemendum skólans sem og öðrum áhugasömum innsýn í störf sín og þær hugmyndir sem búa að baki verkefnum hennar.

Theodóra vinnur bæði í eigin verkefnum og með öðrum hönnuðum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

„Ég ætla að segja sögurnar í kringum verkefnin og koma aðeins inn á persónulega þáttinn, segja frá vinnunni og samstarfsfólkinu og hvaðan hugmyndir mínar koma,“ segir hún. Verkefni Theodóru snúast mikið um það að athuga hvernig hlutirnir verða til og hvernig hægt sé að skoða hlutina út frá því. „Mig langar að reyna að fá þann sem eignast hlutinn, kaupandann eða neytandann, til að átta sig á hvað býr að baki hlutunum því við erum oft svo langt frá uppruna þeirra,“ útskýrir hún.

Theodóra tekur sem dæmi að fólk sé sífellt að verða meðvitaðra um hvað það er að borða og hvaðan maturinn kemur. „Þetta er svipuð pæling nema um efnin í kringum okkur. Það er svolítið sérstakt að vera að borða eitthvað lífrænt og rosa fínt, en svo er maður með einhvern disk sem maður hefur ekki hugmynd um hvaðan kemur eða hvernig hann er búinn til.“

Vill gefa hlutunum meira líf

Í verkefnum sínum hefur Theodóra verið að skoða fjöldaframleiðslu og hvernig hægt er að vera með litla framleiðslu en láta hvern hlut verða einstakan með smá inngripi. „Þegar hlutir eru fjöldaframleiddir er markmiðið að þeir séu allir eins því það er langfljótlegast fyrir alla. En ég hef verið að skoða, til dæmis í mótaverkefnunum mínum, hvernig hægt er að láta hluti verða einstaka með því að rétt snúa mótinu eða raða þeim öðruvísi upp. Þú ert þá kannski að bæta einhverjum fimm sekúndum inn í framleiðsluferlið en færð hlut sem er einstakur,“ segir Theodóra og heldur áfram:

Theodóra hannaði þennan lampa ásamt samstarfsmanni sem hún deilir vinnustofu með. Stefnan er að stækka línuna og koma með fleiri liti.

„Ef manneskja kemur og sér kannski tíu hluti fyrir framan sig sem allir eru ólíkir og hún velur sér sinn hlut, þá verður sambandið við hlutinn sterkara. Þetta er ekki bara eitthvert glas úr Ikea, heldur glasið sem þú valdir þér úr hópnum. Með þessu er ég að reyna að gefa hlutunum aðeins meira líf.“

Þegar Theodóra notar mót til að steypa keramik eða blása í gler þá nýtir hún mótin sjálf líka í stað þess að setja þau bara til hliðar. „Í mótaverkefninu gef ég mótunum nýtt líf, þau verða til dæmis listaverk eða rammar utan um spegla. Ég skoða hvernig hægt er að endurhugsa hlutina án þess að gera einhverjar drastískar breytingar. Það þarf ekki allt að vera nýtt undir sólinni, stundum þarf bara að horfa aðeins á hlutina út frá hlið.“

Borðin eru öll búin til úr sömu mótunum sem er raðað á ólíkan hátt.

Þessa dagana eru ýmis verkefni í gangi hjá Theodóru, hún er bæði að vinna í sjálfsprottnum verkefnum eins og mótaverkefninu en hefur líka verið að vinna með öðrum hönnuðum og fyrirtækjum. „Í sjálfsprottnu verkefnunum er yfirleitt einhver rannsókn sem liggur að baki og mikið af tilraunum, þá verða oft til hlutir sem eru einstakari og kannski aðeins dýrari. En til dæmis á síðasta ári þá bjó ég til ljós með íslenska fyrirtækinu Fólk og þá var hugsunin aðallega sjálfbærni og að nota góð efni, en ljósin eru fjöldaframleidd. Hvort tveggja er mjög skemmtilegt og hefur sínar áskoranir.“

Þegar mótin hafa verið notuð eru þau nýtt í aðra hluti eins og ramma utan um spegla. Hlutirnir eru endurhugsaðir en þeim er ekki ýtt til hliðar.

Theodóra heldur úti vefsíðunni theodoraalfredsdottir.com/ þar sem hægt er að skoða þau verkefni sem hún hefur unnið að og vörur sem hún hefur hannað. Eitthvað af vörunum hennar má kaupa í verslununum Geysi heima og S/K/E/K/K og á vefsíðunni adorno.com. „En svo er bara um að gera að hafa samband við mig hafi fólk áhuga á einhverju. Það er þannig séð allt til sölu,“ segir Theodóra að lokum.

Theodóra raðar mótunum oft á ólíkan hátt svo hver hlutur verði einstakur.