Andrea segir að Covid-sumarið í fyrra hafi breytt heilmiklu varðandi ferðavenjur hennar. Þar sem ekki var hægt að komast til útlanda langaði hana að gera eitthvað innanlands með börnum sínum tveimur sem eru 3 og 5 ára. „Ég hef ekki verið mikil útilegukona. Ég fékk lánað gamalt tjald hjá foreldrum mínum og hélt af stað í tjaldútilegu. Eftir eina nótt á góðri uppblásinni dýnu ákvað ég að gera þetta aldrei aftur. Stemningin er skemmtileg og börnunum mínum fannst þetta spennandi en það var kalt og ég var ekki nógu klár í prímusvesen. Ég er meiri sumarbústaða- eða hótelkona,“ segir Andrea sem heldur úti síðunni @Andrealand á Instagram þar sem hún deilir ýmsu áhugaverðu sem hún er að bardúsa. Andrea er menntaður leikari og rekur eigið fyrirtæki ásamt því að vera í mastersnámi í verkefnastjórnun í HR.

Ekki fyrir tjaldútilegur

„Mér datt í hug eftir tjaldferðina að sniðugt væri að fjárfesta í tjaldvagni. Ég fann einn notaðan en rosaflottan á Facebook og hélt í ferðalag. Það var gott veður og ferðin æðisleg nema að ég var ekki nógu ánægð með aðbúnaðinn. Þetta var sem sagt of mikill tjaldfílingur fyrir mig,“ segir hún. „Ég seldi vinafólki mínu vagninn, gekk skrefi lengra og fjárfesti í gömlu fellihýsi. Allt gerðist þetta á stuttum tíma og pabbi spurði hvort ég yrði ekki örugglega komin með hjólhýsi í næstu ferð. Við héldum í ferð með fellihýsið í eftirdragi og það var allt annað líf. Þetta átti betur við mig, meira hýsi við mitt hæfi með kyndingu, ísskáp, borði, bekk og fleiri græjum,“ segir Andrea, sem fannst þó fellihýsið svolítið amerískt að innanverðu. „Mig langaði að poppa það upp eftir mínum smekk,“ bætir hún við.

Svona leit fellihýsið út að innanverðu þegar Andrea keypti það notað. MYNDIR/AÐSENDAR

Ódýrar endurbætur

Þegar Andrea sótti fellihýsið í geymslu fyrir stuttu ákvað hún að hefjast handa en endurbæturnar máttu þó ekki vera kostnaðarsamar. „Vinkona mín hefur nýlega gert upp sitt fellihýsi og gat gefið mér góðar ráðleggingar. Ég byrjaði á því að fara í Sérefni og kaupa grunn og lakk í sama lit. Það dugði mér að fara eina umferð og þetta var minna en einn lítri af hvoru sem fór í verkið. Þetta var einfalt, bara þrífa, pússa og mála. Á gólfinu var gamall dúkur sem var orðinn ljótur. Ég ætlaði fyrst að kaupa frekar dýran kork sem ég hélt að yrði að vera en hann kostaði um 50 þúsund þannig að ég fór í Enso. Þeir selja filmur. Ætlaði reyndar að kaupa þykka filmu fyrir borðin en hún var ekki til. Þeir buðu mér aðra tegund af filmu á rúllu sem leit út eins og parket. Sú filma er ekki gólfefni en sölumenn töldu það ganga ef ekki væri gengið um á göddum. Ég filmaði því gólfið og það kemur rosalega vel út,“ segir hún.

Andrea segist hafa gert allt sjálf með örlítilli hjálp frá föður sínum. „Pabbi er svo handlaginn í hverju sem er. Hann hefur kennt mér mjög mikið og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt. Ég er ekkert feimin við höggborvélina og á mínar eigin græjur. Eina sem ég á eftir að gera er að skipta um efni á pullunum. Ég er búin að kaupa leðurlíki til þess. Einnig er ég búin að setja ný gluggatjöld og ætla að setja aðra filmu á borðplöturnar. Var ekki nógu ánægð með þá sem ég keypti. Loks ætla ég að spreyja blöndunartæki og vask og þetta á allt að vera tilbúið eftir viku þegar ég fer með vinkonum mínum á Laugarvatn. Ég er sko tilbúin í algjört „Glamping trip“.“

Þótt fellihýsið sé ekki alveg tilbúið hefur það svo sannarlega breytt um svip.

Vestfirðirnir næstir

Andrea segist ætla að vera dugleg að ferðast innanlands í sumar með fjölskyldu og vinum. Vestfirðir eru á dagskrá og jafnvel Austurland. „Veðrið mun ráða för,“ segir hún. „Ég endurnýjaði bílinn líka sem hentar betur fyrir aftanívagn og lét setja á hann krók. Undanfarið er ég búin að æfa mig að bakka með fellihýsi og það gengur bara mjög vel. Ég get víst ekki mætt á tjaldsvæði ein með börn án þess að kunna að bakka fellihýsinu,“ segir hún hlæjandi. „Ég þarf að „lúkka pró“.“ Andrea segir að fellihýsið hafi verið besti kosturinn fyrir sig því í hjartanu finnst henni gaman að ferðast innanlands og oft mikið stuð á tjaldsvæðunum. „Tjaldsvæðin á Íslandi eru til mikillar fyrirmyndar. Þeir eiga mikið hrós skilið sem standa á bak við þessa starfsemi. Snyrtileg og góð aðstaða auk þess sem leikvellir fyrir börn eru frábærir. Síðan eru oft góðar sundlaugar í nágrenninu.“