Nú á dögunum gaf Anna­lísa Her­manns­dóttir út mynd­band við lagið Ég er bara að ljúga er það ekki? Lagið fjallar um upp­lifun þol­enda af kyn­ferðis­of­beldi og öðrum tegundum of­beldis.
Anna­lísa Her­manns­dóttir er ný­út­skrifaður sviðs­höfundur frá LHÍ, leik­stjóri og tón­listar­kona. Hún gaf út fyrstu plötuna sína, 00:01, í fyrra.

„Ég hef leik­stýrt öðrum tón­listar­mynd­böndum, til dæmis fyrir hljóm­sveitina Milk­hou­se og svo K.óla en ég er líka með­limur „live“-hljóm­sveitar hennar þar sem ég spila á hljóm­borð og syng bak­raddir.“

Á fimmtu­daginn kom út fyrsta tón­listar­mynd­band Önnu­lísu, við lagið Ég er bara að ljúga er það ekki?

„Það er blanda af lagi og hljóð­mynd. Ég samdi það snemma árið 2020 inn­blásin af upp­lifun þol­enda hvers kyns of­beldis. Þeim til­finninga- og of­hugsana­rússí­bana sem því fylgir. Lagið fjallar um að halda að maður sé búinn að missa vitið, sé bara með rang­hug­myndir eða lygari og eigi ekki hlut­deild í þessum heimi, en þol­endur upp­lifa sig oft utan við raun­veru­leikann í kjöl­far á­falla. Ég samdi lagið og flyt það,“ segir Anna­lísa.

Af­neitun á­sakana

Hún segir mynd­bandið vera sam­suðu tón­listar­mynd­bands og stutt­myndar.

„Tón­listar­mynd­bands­verk er kannski besta orðið til þess að lýsa því. Mynd­bandið fjallar um þær marg­slungnu til­finningar og hugsanir sem ég tala um hér fyrir ofan á mynd­rænan hátt,“ segir hún.

Lagið og mynd­bandið urðu til út frá verki sem hún gerði á 2. ári á Sviðs­höfunda­braut í Lista­há­skóla Ís­lands. Í verkinu skoðaði hún á­föll og of­beldi út frá per­sónu­legri reynslu þol­enda.

„Nú hefur kyn­ferðis­of­beldi, kæru­mál og æru­mál verið mikið í um­ræðunni, enn meira en áður fyrr, og við erum mikið búin að vera að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að takast á við þessi mál sem sam­fé­lag.

Hvernig við getum tekist á við að ein­hverjir sem við litum upp til séu allt í einu orðnir þau „skrímsli“ sem skrímsla­væðingin gerir ger­endur. Þegar þessir ger­endur voru guðir og eru allt í einu sagðir skrímsli þá er auð­veldara að loka augunum fyrir þeim stað­reyndum sem lagðar eru á borð eða jafn­vel af­neita þeim,“ segir hún.

Flókin staða

Um­ræðan hefur mikið snúist um það hverju eða hverjum maður eigi að trúa, að sögn Önnu­lísu.

„Við höfum rætt að konur geti logið til um of­beldi, spunnið það upp og eyði­lagt orð­spor og æru manns út frá lygum einum og þar fram eftir götum. Við höfum talað um að töl­fræðin segi okkur samt annað, að það séu gríðar­lega litlar líkur á því að þol­endur ljúgi. Margir opin­bera heldur aldrei sögu sína. Í þessari um­ræðu gleymum við að ræða það að þolandi trúir sér oft ekki sjálfur, skilur ekki hvað gerðist, hvernig sér líður, af­neitar því, vill ekki trúa því, vill bara frekar hafa gaman, gleyma þessu. Við höfum ekki talað mikið um þær svaka­legu af­leiðingar sem of­beldið hefur á þolandann, miklu frekar gerandann. Af hverju fær reiðin mín, sorgin, dofinn minn, kvíðinn minn, þung­lyndið mitt, hræðslan mín ekki jafn stórt pláss og æran þín? Af því að ég er bara að ljúga er það ekki?“

Hún segir gerð mynd­bandsins hafa gengið vel.

„Það gekk mjög vel, það var geggjað að vinna með þessum stór­kost­legu konum sem ég vann með, þeim Katrínu Helgu Ólafs­dóttur sem fram­leiddi mynd­bandið og var mín hægri hönd í gegnum þetta allt saman, Rakel Ýri Stefáns­dóttur sem skaut það og Söru Ósk Þor­steins­dóttur sem að­stoðaði á setti með ljós og fleira. Ég klippti svo mynd­bandið, sem var auð­vitað krefjandi þar sem ég leik í því og leik­stýri sjálf, en það var líka mjög gefandi og skemmti­legt.“