Karl Brynjólfsson gerði aðra örvæntingafulla tilraun til að koma einhleypri dóttur sinni, Eddu Mjöll Karlsdóttur í samband í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 í gær.

Karl hefur vakið athygli á hliðarlínunni á leikjum Íslands á Heimsmeistaramótinu í handbolta fyrir innlifun sína í stúkunni.

Þegar Karl ræddi þetta við Stefán Árna Pálsson nýtti hann tækifærið til að vekja athygli á því að Edda Mjöll, dóttir sín, væri 29 ára, gullfalleg kona og hvort að það gæti ekki einhver komið sér í samband við hana.

„Dóttir mín er 29 ára, býr ennþá heima og er á lausu. Í guðanna bænum, þetta er gullfalleg kona. Getur ekki einhver, einhver?“ sagði Karl en myndbandið má sjá hér.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem tilraun Karls til að koma dóttur sinni í samband vekur athygli en hann leigði auglýsingaskilti á Akureyri og vakti athygli á sambandsstöðu Eddu og bróður hennar, Kristófers, árið 2021.

„Syst­kinin Edda Mjöll og Kristó Karls verða á Akur­eyri þessa helgina í leit að maka!,“ stóð á skiltinu með upplýsingum um Insta­gram-reikning þeirra syst­kina og síma­númer þeirra.

Neðst á skiltinu stóð „Ég SKAL koma þeim út, kveðja pabbi.“