Þetta er líklega lengsta réttarfarsmál Íslandssögunnar, mál Sunnefu þvældist í kerfinu í nærri tvo áratugi og við vitum ekki fyrir víst hver örlög hennar voru,“ segir Þór Tulinius, leikstjóri verksins Sunnefa, sem sett er upp af leikhópnum Svipir og verður fyrsta sýning í Tjarnarbíói annað kvöld, fimmtudagskvöldið 4. mars. Til stóð að fyrsta sýningin í Tjarnarbíói yrði í október í fyrra en því var frestað vegna COVID-19 faraldursins.

Verkið byggir á lífi Sunnefu Jónsdóttur sem var tvídæmd til dauða fyrir blóðskömm, mál sem olli miklu uppnámi á Alþingi árið 1783 þegar hún sakaði Hans Wium sýslumann um að vera föður annars barns síns.

Sagan af Sunnefu var að miklu leyti endurvakin árið 2019 þegar Kristín Atladóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, setti upp listsýningu og gaf út bók um málið þar sem sagan var hugsuð upp á nýtt. Fram að því hafði yfirleitt verið gengið út frá því að Sunnefa hefði verið klækjakvendi sem hefði táldregið sýslumanninn.

Árni Friðriksson, framhaldsskólakennari á Egilsstöðum, er höfundur verksins sem verður sýnt í Tjarnarbíói en það var frumsýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í september við góðar viðtökur. „Þessi saga hefur alltaf lifað í minningu fólks fyrir austan. Það er hylur í Fljótsdal, Sunnefuhylur, sem heitir í höfuðið á henni. Þar skyldi henni drekkt, en enn er ekki vitað fyrir víst hvort það var gert eða hvort hún hafi dáið með öðrum hætti,“ segir Þór.

Tinna og Margrét Kristín í hlutverkum Sunnefu og Hans Wíum. Mynd/Elín Signý Ragnarsdóttir

Sagan er túlkuð af tveimur leikkonum. Tinna Sverrisdóttir leikur hlutverk Sunnefu og Margrét Kristín Sigurðardóttir leikur alls tólf hlutverk, þar á meðal Hans Wium. „Við höfum verið að vinna að uppsetningu verksins í rúma tíu mánuði og fengum að spinna og brjóta verkið upp,“ segir Tinna. „Við förum líka inn í nútímann þar sem við notum okkar eigin rödd til að varpa ljósi á allar spurningarnar sem vakna í kringum þetta mál og það sem er óvitað.“

Margrét Kristín segir að í raun sé verið að gera tilraun til að leysa sakamál. „Við erum að leyfa rödd Sunnefu að heyrast. Allar heimildir um málið eru ritaðar af karlmönnum, við notum okkar kvenlæga innsæi til að setja okkur í hennar spor og hvernig það var að vera kona á þessum tíma. Þetta er í raun baráttusaga allra kvenna á Íslandi,“ segir hún.

Í verkinu er einnig skoðuð saga annarra kvenna sem vitað er að var drekkt á þessum tíma. „Það koma fyrir sögur þriggja annarra kvenna sem voru dæmdar samkvæmt Stóradómi,“ segir Þór. „Það var þá fyrir blóðskömm, brot á skírlífi og önnur slík brot.“

„Örlagasögur þessa fólks sem varð fyrir barðinu á Stóradómi á 17. og 18. öld eru hrikalegar og full ástæða til að draga þær fram í dagsljósið. Þetta er svo ótrúlega stutt síðan, þetta var á tímum ömmu, ömmu ömmu okkar,“ segir Tinna.