Margir aðdáendur Disney myndarinnar Aladdin tóku gleði sína á ný í gær þegar framleiðandinn birti glænýja stiklu úr myndinni en hingað til hafði einungis komið út ein kitla auk nokkurra mynda. Stikluna má sjá hér að neðan. 

Það sem hefur þó vakið mestu athygli aðdáenda er útlit leikarans Will Smith sem hins vel þekkta anda en líkt og flestir muna eftir úr upprunalegu teiknimyndinni var andinn blár að lit og ljóst að framleiðendur hafa ákveðið að halda í gamla útlitið en það má sjá helbláan Will Smith í stiklunni.

Netverjar hafa vægast sagt brugðist ókvæða við og flestir gert stólpagrín að útliti leikarans á samfélagsmiðlinum Twitter og má sjá nokkur vel valin tíst hér að neðan. 

„Það kemur í ljós að andi Will Smith's mun ásækja mig í martröðum mínum,“ segir einn netverjanna. „Ef ég sef aldrei aftur, er það Will Smith að kenna,“ skrifar annar og ljóst að viðbrögðin eru kannski ekki nákvæmlega eins og menn hjá Disney óskuðu sér en einhverjir voru þó til í að gefa þessu tækifæri, að minnsta kosti þar til myndin kemur út í maí.