Með í teyminu eru palest­ínsku bræðurnir Quays Mitwalli sem sér um ljósabúnað í tökum og Muhannad Mitwalli sem er aðstoðartökustjóri og bílstjóri, og Ísraelsmaðurinn Gil Shapiro sem aflar heimilda og hefur sett upp viðtöl við viðmælendur myndarinnar. Þetta er fyrsta mynd í fullri lengd sem Baldvin vinnur að, en hann hefur áður leikstýrt auglýsingum og tónlistarmyndböndum.

„Þetta er mjög flott og stórt tækifæri fyrir mig. Ingi Kristján Sigurmarsson sem er grafískur hönnuður og meðlimur Hatara, maðurinn á bak við tjöldin, er gamall og góður vinur minn. Hann var að fara að leikstýra myndbandi við lagið Spillingardans. Þá fékk hann leiktæki frá BDSM-félaginu og fékk mig inn í verkefnið til að taka upp og leikstýra með honum. Síðan eyddum við um 14 klukkustundum í að kveikja í, berja og binda hljómsveitarmeðlimi. Þarna hitti ég meðlimi Hatara í fyrsta sinn og fannst þeir vera áhugavert efni til að taka upp.

Ég ákvað að halda áfram að fylgja þeim eftir tökurnar á myndbandinu. Ég sá eitthvað þarna, sem er orðið að þessu í dag. Heimildarmyndin sem við erum að vinna núna kviknaði upphaflega út frá áhuga mínum á Hatara og að fylgjast með gjörningi þeirra.“

Áhersla á myndrænu hliðina

Það kom þó ekki skýr mynd af heimildarmyndinni sem Tattarrattat og RÚV eru að framleiða fyrr en Anna Hildur kom inn í verkefnið, þegar Hatari sigraði í Söngvakeppni sjónvarpsins í mars á þessu ári. „Þá voru alls konar hugmyndir búnar að vera í gangi með myndefnið sem Baldvin var búinn að vera að taka upp síðastliðið ár,“ segir Anna.

„Hatari hefur alltaf lagt mikla áherslu á myndræna hlið tónlistar sinnar, þannig að það er til mjög mikið af myndefni sem verður notað í myndinni, og svo auðvitað myndefnið sem Baldvin var búinn að taka upp.“

Bretarnir Iain Forsyth og Jane Pollard eru yfirframleiðendur myndarinnar og eiga Tattarrattat með Önnu Hildi, en Forsyth og Pollard gerðu heimildarmyndina 20.000 Days on Earth sem fjallar um tónlistarmanninn Nick Cave og feril hans, og var tilnefnd til BAFTA-verðlauna og fékk meðal annars Sundance-verðlaunin. „Við tókum svo samtal okkar á milli og með Hatara um hvernig væri hægt að gera heimildarmynd sem gæti orðið áhugaverð á alþjóðavísu,“ segir Anna, en Hatari hefur ekki síður fengið athygli erlendis vegna boðskapar síns um stefnu ísraelskra stjórnvalda og um að knésetja kapítalismann.

Tóku upp förina til Palestínu

Fyrsta skrefið í þróun hugmyndarinnar að myndinni er þátturinn Fólkið á bak við búningana sem var sýndur á RÚV og Anna og Baldvin unnu að saman. Þátturinn fjallaði um Hatara og væntingar þeirra til afleiðinga af þátttöku sinni í Eurovision. „Sá þáttur gefur góða mynd af því sem við erum að hugsa með myndina,“ segir Anna.

Tímarammi myndarinnar byrjar á lokakvöldi undankeppni Eurovision á Íslandi og endar á lokakvöldinu í Tel Avív. Tökuliðið hefur fylgt Hatara meðal annars í ferðum til Betlehem, Jerúsalem, borgirnar Hebron og Ramallah í Palestínu, í viðtöl við fjölmiðla og að sjálfsögðu baksviðs í undankeppnunum. „Tökudagarnir eru búnir að vera mjög langir hér úti, það er auðvitað margt í gangi. Baldvin var baksviðs að taka upp viðburði sem voru að gerast þar í undankeppninni,“ segir Anna. Svo var meðal annars tekið upp Eurovision-partí vinafélags Íslendinga í Tel Avív sem var haldið síðastliðinn miðvikudag.

Að sögn Önnu og Baldvins var glatt á hjalla hjá Íslendingunum í Ísrael eftir að í ljós kom að Ísland kæmist áfram í úrslitakeppnina. „Hér er náttúrulega stór hópur af fjölskyldu og vinum meðlima Hatara, það eru allir í skýjunum yfir þessu. Starfsliði RÚV virðist vera létt líka, að Ísland hafi loksins náð að komast upp úr undankeppnisriðlinum,“ segir Anna.

Myndin fjalli fyrst og fremst um ferðalag þessa pólitíska bands í keppninni að sögn Önnu. „Við erum að fylgjast með því hvort þeim takist að uppfylla markmið sín. Hatari lofaði að setja mikilvæg mál á dagskrá og stuðla að gagnrýninni umræðu. Þau eru búin að ná því, það væri bara bónus að vinna keppnina, aukin athygli og umræða um það sem Hatari stendur fyrir er aðalmarkmiðið með þátttökunni.“

Anna segir að skoðanir Ísraela á Hatara séu misjafnar. „Sumum finnst þau vera alveg að misskilja ástandið, en margir eru ánægðir með þá. Við höfum hitt töluvert af listamönnum hér, og margir þeirra taka undir það sem Hatari er að gera. Fólk skiptist í tvo hópa hér í Ísrael yfir þessu og kannski á mörgum öðrum stöðum líka. En Hatari hefur samt fengið jákvæða umfjöllun á forsíðum ísraelskra fjölmiðla. Við fáum bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð.“

Eins og komið hefur fram er myndin hugsuð fyrir alþjóðlegan áhorfendahóp og áhuginn á Hatara virðist vaxa frá degi til dags, hvort sem fólk er sammála þeim eða ekki, og hvort sem mönnum er misboðið vegna BDSM-búninganna.

Anna og Baldvin eru á vegum kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Tattarrattat og RÚV. Búist er við að myndin um Eurovision-gjörning Hatara komi út á næsta ári.