Eitt af leyndar­málunum sem opin­beruð voru í nýjustu bókinni um þau Harry og Meg­han, Finding Freedom, sem kom út í dag, er nafnið á labrador hundinum þeirra. Net­verjar gera stólpa­grín að nafninu í dag en hundurinn heitir Pula, sem er rúmenskt slangur­yrði yfir „typpi.“

Það erbreska götu­blaðið The Sun sem gerir sér mat úr þessu gysi net­verja. Líkt og Frétta­blaðið greindi frá hafa ýmis leyndar­mál komið fram úr til­huga­lífi her­toga­hjónanna í bókinni.

Í bókinni er haft eftir vinum hjónanna að þau hafi nefnt hundinn Pula eftir gjald­miðlinum í Botswana. Þangað fóru þau saman árið 2016 þegar þau höfðu ný­lega kynnst og á­kváðu að eyða ævinni saman.

Líkt og áður segir hafa rúmenskir net­verjar gert stólpa­grín að nafninu. Gengur breska götu­blaðið svo langt að kalla Pula „typpa­hund“ her­toga­hjónanna.

„Litla á­fallið að sjá þetta á prenti....!!!“ skrifar einn net­verjanna sem götu­blaðið vitnar í. „Það hlýtur ein­hver í hópnum þeirra að hafa gúgglað þetta til að at­huga hvort Pula þýddi nokkuð „getnaðar­limur“ á rúmensku?“ spyr einn net­verja í gríni.

Hjónin fóru aftur til Botswana ári síðar. Þar unnu þau með náttúru­verndar­sam­tökum sem vinna að verndun fíla sem eru í út­rýmingar­hættu. Tekið er fram í frétt götu­blaðsins að „pula“ þýði einnig regn í Setswana málinu, því sem talað er í Botswana.