Netflix

Uncoupled

Aðalhlutverk: Neil Patrick Harris, Tisha Campbell, Brooks Ashmanakas, Emerson Brooks

Árið er 2000 og undirrituð, þá unglingur, trúir ekki sínum eigin augum þegar Ríkissjónvarpið hefur sýningar á framhleypnum þáttum sem eru fullir af útlitsáhyggjum, tísku og klúrum kynlífssögum í stóra eplinu, New York. Fullnægingar, kynsjúkdómar og typpastærðir eru ræddar kinnroðalaust. Aðalpersónan Carrie er frekar óþolandi en aukapersónur þeim mun dásamlegri.

Tuttugu og tveimur árum síðar birtist Neil Patrick Harris okkur í hlutverki fasteignasalans Michael í þáttunum Uncoupled. Hann leikur þar mann hvers tilfinningalíf hrynur þegar kærasti hans til 17 ára fer frá honum. Líkt og Carrie er Michael frekar óþolandi og himnarnir forði ykkur frá því að sitja við hliðina á svona sjálfsupptekinni og sívælandi manneskju í matarboði, jafnvel þó að það sé á Manhattan í kringum allt sem samfélagið kennir okkur að þrá. En hliðarpersónur eru dásamlegar, sögusviðið skemmtilegt og framvindan kvik. Og enn ræðum við kynsjúkdóma og typpastærðir, en nú er sögumaður ríkur, vel menntaður hommi og sögusviðið hans nærsamfélag.

Vinir Michaels skapa kjölfestu og styðja vel við söguna, ásamt því að fá úr drepfyndnum línum að spila. Þar er veðurfréttamaðurinn Billy, sjálfsöruggur og sígraður og rúllukragapeysutýpan Stanley sem er einmana listaverkasali. Samstarfskona og vinkona Michaels er Suzanne, á köflum svolítið klisjukennd hliðarpersóna sem er þó auðvelt að falla fyrir.

Þættirnir vinna vel með kynslóðabilið og hvernig hlutir eins og tækniframfarir eða þekking á sögunni getur teygt þetta kynslóðabil lengra en við kærum okkur um. Sérstaklega er þetta persónum mikilvægt þegar kemur að hinsegin sögunni, sem er líka saga mannréttindabaráttu og HIV faraldurs.

Þættirnir eru langsamlega skemmtilegustu miðlífskrísuþættir sem birst hafa á streymisveitum í langan tíma. Michael kemur úr áratuga sambandi og lendir á markaðinum eins og George in the Jungle gerði forðum, og prófar Grindr í fyrsta sinn. Ómögulegar aldurs- og útlitskröfur eru augljósar en þættirnir fara ekki í að gagnrýna það heldur samþykkja það og sýna án spurninga eða svara.

Líkt og í Beðmálum um aldamótin er aðalpersónan Michael að leita að ástinni, eða einhverju sem líkist henni, fer á stefnumót og hittir fallega skapaða rekkjunauta og lendir í vandræðum sem margir fullorðnir geta tengt við.

Niðurstaða: Þegar svona þættir birtast verður maður næstum því þakklátur fyrir leiðindaveður til að fá hina fullkomnu afsökun fyrir glápaþoni.