Eitt­hvað var um að fólk gæti ekki tengt sig inn á af­mælis­tón­leika Björg­vins Hall­dórs­sonar í gær og gátu því ekki horft á þá. Björg­vin átti 70 ára af­mæli í gær og hélt streymis­tón­leika. Ís­leifur Þór­halls­son, fram­kvæmda­stjóri Senu Live, sem sá um tón­leikana, segir að þau hafi reynt sitt allra besta til að að­stoða fólk en segir að tæknin vinni ekki alltaf með fólki.

„Málið er það að við erum með gríðar­lega vandaða streymis­lausn. Vandað fyrir­tæki og vandaðan spilara og við leggjum alveg rosa­lega mikið upp úr því að tryggja að streymið á vef­síðunni sé í lagi og það var í lagi í gegnum þetta allt saman. Hins vegar er það þannig að streyming er „tricky mál“ því það eru svo mörg stýri­kerfi og svo margar týpur af brow­serum og tækjum og alveg sama hvað straumurinn fer góður frá okkur þá eru tækin og hug­búnaðurinn eru mis­góð,“ segir Ís­leifur.

Hann segir að vafrar í sjón­vörpum séu til dæmis ekki góðir og þau stingi upp á lausnum sem að virka ef fólk lendir í vand­ræðum. Oft snúist það um að skipta úr Chrome í Safari vafra eða öfugt og það sé ekkert endi­lega vitað af hverju eitt virkar en ekki hitt. Eins með að fara af 5G yfir á Wifi

„Við erum með fullt af fólki á tón­leika­dag að svara og allir fá svar og allir ná í okkur. Við gerum okkar besta að að­stoða fólk til að finna lausnir og svo er það oft að fólk lendir í vand­ræðum út af öllu,“ segir Ís­leifur sem segir tæknina ný­stár­lega og það sé auð­vitað enn unnið að því að fá öll kerfin til að vinna saman sem þarf.

Engin álagsvandræði eða hökt

Hann segir að það hafi verið vaktað vel í gær og að það hafi verið reynt að tryggja að straumurinn myndi „höndla“ marg­faldan fjölda og það hélt allt vel hjá þeim.

„Það voru engin á­lags­vand­ræði og ekkert hökt hjá okkur en svo er það þannig, og ég er ekkert að draga undan því, að þegar maður fer á streymis­við­burð þá lendir fólk í alls­konar. Það eins sem við getum gert er að vera alveg á milljón að að­stoða fólk,“ segir Ís­leifur.

Hann segir að lang­flestir hafi ekki lent í vand­ræðum og að oftast sé „restart“ lausnin.

Hann segir að fólk geti haft sam­band ef það lenti í vand­ræðum og það verði farið yfir það. Það sé þó ekki alltaf hægt að endur­greiða.

„Þetta gekk svaka­lega val og við höfum fengið já­kvætt „feed­back“,“ segir hann að lokum.