Þessa dagana fjölgar birtustundum hratt. Skammdegið er að víkja fyrir bjartari kvöldum og sólin er farin að rísa fyrr á morgnana. Vorjafndægur verða 20. mars en þá er dagurinn jafnlangur nóttunni. Fyrir marga er skammdegið erfitt og lundin léttist því dagsbirtunnar nýtur við lengur og lengur á degi hverjum.

Sólarljós og myrkur hafa áhrif á hormónaframleiðslu í heilanum. Talið er að þegar fólk er útsett fyrir sólarljósi aukist losun heilans á hormóninu serótónín. Serótónín léttir lundina og hjálpar fólki að finna fyrir ró og einbeitingu. Á nóttunni þegar dimmir framleiðir heilinn annað hormón sem kallast melatónín. Melatónín, eins og margir vita, hjálpar fólki að sofa.

Þegar sólarljósið er ekki nægilega mikið, sem er staðan hér á Íslandi yfir dimmustu vetrarmánuðina, getur serótónínmagnið í heilanum tekið dýfu. Lítið magn af serótóníni tengist aukinni hættu á alvarlegu skammdegisþunglyndi.

En léttari lund er ekki eini heilsufarslegi ávinningurinn sem fylgir auknu sólarljósi. Þegar geislar sólarinnar skína á húðina framleiðir hún D-vítamín. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2008, þá framleiddi fólk eftirfarandi magn D-vítamíns eftir að hafa verið útsett fyrir sólargeislum á sundfötum í 30 mínútur:

  • Hvítt fólk: 50.000 IU einingar
  • Ljósbrúnt fólk: 20-30.000 IU einingar
  • Dökkt fólk: 8-10.000 IU einingar

D-vítamín spilar stórt hlutverk í heilsu beina. Lágt D-vítamíngildi hefur verið tengt við beinkröm hjá börnum og beinþynningu. Þannig getur hæfilegt magn af sólarljósi stuðlað að heilsu beina.

Vörn gegn krabbameini

Þrátt fyrir að of mikið sólarljós geti stuðlað að húðkrabbameini hefur hóflegt magn í raun fyrirbyggjandi áhrif þegar kemur að krabbameini. Samkvæmt bandarískum vísindamönnum eru þau sem búa á svæðum með lítilli dagsbirtu líklegri til að fá ákveðnar tegundir krabbameina en þau sem búa þar sem sólar nýtur við lengur á daginn. Þessi krabbamein eru meðal annars: ristilkrabbamein, krabbamein í eggjastokkum, Hodgkins eitilfrumuæxli, krabbamein í brisi og krabbamein í blöðruhálskirtli.

Samkvæmt heimildum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) gæti útsetning fyrir sólinni einnig hjálpað til við meðhöndlun nokkurra húðsjúkdóma. Læknar hafa mælt með útsetningu fyrir útfjólubláum geislum til að meðhöndla: psoriasis, exem, gulu og unglingabólur.

En þrátt fyrir að sólin sé góð að mörgu leyti þá getur útfjólublá geislun hennar valdið húðskemmdum sem geta leitt til húðkrabbameins. Vísindamenn vita ekki nákvæmlega hversu lengi æskilegt er að vera úti í sól til að njóta ávinnings af henni. En það hversu mikið sólarljós húðin þolir veltur á húðgerð og eins hversu sterkir sólargeislarnir eru. Fólk með ljósa húð brennur yfirleitt fyrr í sólinni en það sem er með dekkri húð. Einnig er líklegra að brenna í sólinni þegar hún er sterkust en það er yfirleitt í nokkra klukkutíma í kringum hádegið.

Samkvæmt WHO er nóg að fá sólarljós í 5 til 15 mínútur á handleggi, hendur og andlit tvisvar til þrisvar sinnum í viku til að njóta D-vítamínbætandi sólar. Athugið að sólin verður að komast inn í húðina. Að setja sólarvörn eða fatnað yfir húðina mun ekki leiða til D-vítamínframleiðslu. En ef ætlunin er að vera úti í meira en 15 mínútur er gott að vernda húðina. Það er hægt að gera með því að nota sólarvörn með að minnsta kosti 15 í styrkleika.

Heimild: Healthline.com