Kvikmyndir

Boss Level

★★★

Leikstjórn: Joe Carnahan

Aðalhlutverk: Frank Grillo, Mel Gibson, Naomi Watts

Leiðinlegt fólk sem skilur ekki að eina leiðin til að lifa af hér á jörðinni er að lifa í skáldskap er átakanlega líklegt til þess að afgreiða hasarmyndina Boss Level sem algert drasl. Kjaftæði og rakalausan þvætting.

Það fyrsta er alrangt. Myndin er ekki drasl en hún er rökleysa og tóm steypa. Sem er bara hið besta mál á meðan hasarinn er góður, spennan yfir meðallagi og persónurnar eru ýktir töffarar og traustar erkitýpur.

Boss Level klikkar ekki á þessum grundvallaratriðum í ansi hæpnum tímaflakkshasar þar sem sérsveitarmaðurinn fyrrverandi Roy Pulver er fastur í blóðugum Grundhog Day þar sem allir dagar byrja eins og enda allir á því að hann er myrtur á misóþægilegan hátt.

Roy lærir þó daglega alltaf eitthvað nýtt um stöðu sína í þessari eilífðarhringrás dauðans áður en hann er drepinn og kemst þannig örlítið lengra inn í hvern dag og aðeins nær því að finna þann sem er ábyrgur og rjúfa vítahringinn.

Frank Grillo er nógu sjarmerandi og svalur til þess að halda dellunni gangandi þangað til hann hefur lært nóg af ítrekuðum dauða sínum til þess að fá tækifæri til þess að klára leikinn.
Mynd/Hulu

Tölvuleikjalógíkin er alls ráðandi í myndinni sem ber nafn með rentu þar sem eftir ótal dauða í leiknum kemst spilarinn að lokum á síðasta borðið og mætir aðalkallinum. Sem í þessu tilfelli er brjálæðingurinn Mel Gibson sem skilar fyrirtaks illmenni með mun yfirvegaðari leik en búast mátti við.

Þá er Frank Grillo alveg nógu sjarmerandi og skemmtilegur töffari til þess að falla með stæl um 300 sinnum fyrir ferla skemmtilegum leigumorðingjum þar sem Selina Lo er aðalsenuþjófurinn sem hin sverðfima Guan Yin.

Selina Lo er eldhress í hlutverki hinnar hárbeittu og sverðfimu Guan Yin sem er annáluð fyrir snyrtilegar afhöfðanir og aðeins fyrir lengra komna að takast á við hana.
Mynd/Hulu

Sagan er þvæla sem gengur varla upp en manni leiðist ekki eitt augnablik á meðan og í raun er stærsta ráðgáta myndarinnar hvað í ósköpunum jafn góð leikkona og Naomi Watts er að gera þarna í rýru hlutverki ástarviðfangs aðalhetjunnar sem hrindir sturlaðri atburðarásinni af stað.

Niðurstaða: Tölvuleikjalógíkin með sinni eilífu endurtekingu hins sama er merkingarmiðja Boss Level sem er því óhjákvæmilega algert kjaftæði. Hressilegt ofbeldi og ýktir töffarastælar ásamt fínum leikurum í góðu stuði duga þó sem betur fer til þess að gera þessa steypu að prýðilegri skemmtun.