Helga Rakel Hagalín er átján ára gömul, markaðsstjóri Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð, keppir með meistaraflokki Gróttu í fótbolta og gengur í buxum af pabba sínum þar sem hún hefur ekki keypt sér ný föt í tvö ár.

Meðvituð um neikvæð umhverfisáhrif síbreytilegrar fatatískunnar ákvað Helga Rakel að hætta að ganga í nýjum fötum enda illmögulegt að full- og endurnýta þegar fatavalið hverfist um að það sem var töff í gær er orðið glatað á morgun.

Helga Rakel segir fátt jafn skemmtilegt og að gramsa á stórum nytjamörkuðum í útlöndum og nýtir öll tækifæri sem gefast. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Hún segir umhverfisvænt fatavalið hafa ýmsa kosti aðra og þótt kolefnisjöfnun tískunnar sé auðvitað aðalmálið þá sé þetta ódýrt og henti henni þar sem „ég fíla einhvern veginn líka svona „fast fashion“ vegna þess að það er alltaf leiðinlegt að vera í sama dressi og einhver annar og þetta felur í sér að maður getur bara keypt einhverja eina flík sem enginn annar getur fengið,“ segir Helga Rakel um tískufrelsi sitt.

Tímaskökk tíska

„Mér finnst þetta eðlilegasti hlutur í heimi og líður náttúrlega alltaf eins og allir fari að breyta þessum vana að kaupa ný föt,“ segir Helga Rakel þegar hún er spurð hvort ekki sé við ofurefli að etja í stóra samhenginu þegar tískuiðnaðurinn er annars vegar.

Rautt vestið frá Samhjálp smellpassar við buxur úr Spúútnik.

„En svo um leið og ég fer út fyrir þennan innsta hring minn í skólanum og heima þá er ég strax alltaf agndofa yfir fólkinu sem bara kaupir og kaupir,“ segir Helga Rakel sem þykir síður en svo áberandi hallærisleg á göngum MH þótt fötin hennar séu mörg hver komin til ára sinna.

„Nei, alls ekki, enda þykir þetta eðlilegasti hlutur í heimi. Að kaupa bara notað. Ég á alveg vini í öðrum skólum og þau dissa mig ekkert fyrir þetta og skammast sín eiginlega bara frekar fyrir að vera í hinu liðinu.“

Fúkkalykt umhverfisverndar

Þau sem fetta fingur út í fataval Helgu Rakelar eiga nær undantekningarlaust sameiginlegt að þetta er í nefinu á þeim. „Ég hef reyndar fengið að heyra að það sé svo vond lykt inni í svona búðum og þegar ég pæli í því þá er þetta helst eitthvað svona: „Ugghhh, ég get ekki verið í fötum sem annað fólk hefur átt!“ Sumum finnst það eitthvað subbulegt og að fötin lykti öll illa sem mér finnst bara fyndið,“ segir Rakel og bætir við að það sé ekkert mál að raða notuðu flíkunum saman þannig að úr verði hvort heldur sem er fínasti spari- eða hversdagsklæðnaður.

Helga Rakel í notuðum fötum úr Spúútnik, Samhjálp, Wasteland og í úlpu frá fatamarkaðinum á Hlemmi.

Ránið á týndum fötum foreldranna

Nytjamarkaðir eru helstu veiðilendur Helgu Rakelar sem leitar helst fata hjá Rauða krossinum. „Svo er það fatamarkaðurinn á Hlemmi, Hertex, Nytjamarkaður Samhjálpar og stundum Spúútnik en þar getur maður alveg lent á gallabuxum á tíu þúsund kall sem kosta miklu minna í til dæmis H&M,“ segir Helga Rakel sem sættir sig við að notað er ekki alltaf ódýrasti kosturinn.

„Ég er svo líka bara dugleg að grafa í skápum. Mamma geymir allt og ég hef fengið helling frá henni af einhverju sem hún átti þegar hún var yngri og þetta fer alltaf bara í hring. Það er rosalega fyndið. Ég byrjaði í rauninni frekar snemma á þessu og þá á því að ganga bara í buxum af pabba og belta þær mjög vel. Það hefur virkað mjög vel,“ segir Rakel sem finnst frábært að geta þannig virkjað hina eilífu hringrás tískunnar.