Ágúst Aðalsteinsson, smiður og fjölskyldufaðir, fékk svoleiðis tól í jólagjöf og segir það bæði sniðugt og handhægt. Það sé einfalt í uppsetningu og kjörið fyrir fjölskyldufólk sem og aðra. Eini stýribúnaðurinn sé þetta smáforrit í símanum. „Þetta er bara svona dyrabjalla sem þú festir fyrir utan hjá þér og það er hreyfiskynjari á henni og svo ertu bara með app í símanum,“ útskýrir Ágúst.

Fjarstýrt öryggi

Ágúst segir að tækinu sé stjórnað í gegnum snjallsíma og að þannig sé hægt að svara hvar sem maður kunni að vera staddur. „Svo geturðu bara svarað í símann þinn, meira að segja þegar þú ert ekki heima,“ segir hann. „Ég get verið á Akureyri og einhver dinglar fyrir utan heima hjá mér og þá get ég talað við hann bara í gegnum myndavélina í símanum,“ segir hann. „Þú getur tekið þetta með þér hvert sem er, í sumarbústað eða bara hvert sem er, nefndu það,“ segir Ágúst.

Ágúst segir símann strax láta vita ef einhver er fyrir utan. „Þegar einhver kemur að útidyrahurðinni kviknar á myndavélinni og upptaka fer í gang,“ segir hann. Þá geti hann ávarpað hvern þann sem annaðhvort hringir bjöllunni eða bara mætir fyrir utan. „Þá pípir síminn þegar það er einhver fyrir framan hjá þér og þú getur talað í þetta,“ segir Ágúst. „Þetta er bara algjör snilld,“ bætir hann við.

Þrælsniðugt fyrir foreldra

Ágúst segir að tækið sé einfalt í notkun og viðhaldi. Hann segir að það þurfi engar snúrur en þó sé hægt að tengja það við rafmagn þar sem dyrabjöllur voru áður. Þess sé þó ekki þörf. „Þú þarft ekkert rafmagn eða eitthvert kjaftæði í þetta,“ segir hann. „Þú hleður þetta í tvo tíma og þá dugar það í viku,“ skýrir Ágúst frá.

Ágúst segir að mesti kosturinn við tækið sé sennilega tengingin við krakkana þegar þau koma heim úr skólanum. „Þetta er geggjað þegar krakkarnir eru að koma heim úr skólanum og svona, þá bara dingla þau þarna og maður talar bara við þau í gegnum myndavélina,“ segir hann. Hann segir að svona tæki veiti notendum aukna öryggiskennd. „Ef það er einhver hreyfing fyrir utan hurðina þá kviknar á myndavélinni og það er tekið upp vídeó af því, alveg sama hvenær það er, þetta er alveg þrælsniðugt“ segir Ágúst.

Þegar Ágúst er spurður hvort eitthvað hafi komið upp á síðan tækið var sett upp svarar hann neitandi. „Það er svo friðsælt hérna í Hafnarfirðinum,“ segir hann.