Ljóð­skáldið Ágúst(a) sendir frá sér sína fyrstu ljóða­bók um miðjan októ­ber sem ber titilinn Hrjóstugt hálf­sumar­land. Bókin kemur út á vegum Regínu bóka­út­gáfu sem er að sögn Ágúst(u) hugar­fóstur þjóð­þekkts vel­gjörða­manns sem valdi hana úr stórum hópi ung­skálda en kýs að halda nafn­leynd.

„Ég hef verið í sam­skiptum við Steinunni Sigurðar­dóttur í mörg ár og í gegnum tenginguna við hana þá var ég svo heppin að komast í kynni við mann­eskju sem ég get ekki nefnt á nafn en hefur alltaf viljað hjálpa ungum rit­höfundum og byrjaði með gras­rótar­starf­semi á síðustu ævi­árum,“ segir Ágúst(a).

Hún vill þó ekki gefa neitt nánar upp um hver hinn nafn­lausi vel­gjörða­maður er. „Þetta hefur alltaf verið síðasti draumur þessa aðila að hjálpa ungum skáldum að fóta sig og ég var valin. Ég get sagt að þetta er efna­mikill ein­stak­lingur og það er þess vegna sem þessi leynd ríkir.“

Ágúst(a) skrifaði Hrjóstugt hálf­sumar­land að­eins ní­tján ára á meðan hún dvaldi á Land­spítalanum vegna sjúk­dóms í raf­kerfi hjartans.

„Ég fæddist með auka leiðni­braut í hjartanu sem var mjög erfitt að glíma við í æsku. Svo fór ég í að­gerð og hjartað mitt var bók­staf­lega brennt á Land­spítalanum,“ segir hún. Ágúst(a) bætir því við að hún hafi verið hætt komin á tíma­bili, var farin að búa sig undir það að fá gang­ráð og þurfa mögu­lega að notast við hjóla­stól út ævina.

„Ég var farin að missa út rosa­lega mörg slög, sér­stak­lega í svefni, og hefði eigin­lega átt að deyja ein­hvern tímann þegar ég svaf en gerði það sem betur fer ekki.“

Þú skrifaðir bókina 19 ára en hún kemur út þegar þú ert 25 ára, af hverju leið svona langur tími á milli?

„Það var svo margt í gangi þarna í mínu lífi, að komast yfir þetta hjarta­á­stand og vinna mig út úr því. Ég vildi gefa þessu að­eins meiri tíma og svo bætti ég við nokkrum nýrri ljóðum.“

Ágúst(a) stefnir á að halda út­gáfu­hóf 15. októ­ber og verður dag­skrá þess til­kynnt síðar. Sam­hliða út­gáfunni ætlar hún svo að byrja með nýtt hlað­varp í sam­starfi við Regínu bóka­út­gáfu sem kallast Þrjár bækur, þar sem hún ræðir við rit­höfunda um bók­menntir.

Ég var farin að missa út rosa­lega mörg slög, sér­stak­lega í svefni, og hefði eigin­lega átt að deyja ein­hvern tímann þegar ég svaf en gerði það sem betur fer ekki.