Nýtt lag með Bubba Morthens kemur út í dag, en það heitir Á horni hamingjunnar. Hann segir lagið í miklu uppáhaldi hjá sér.

„Þetta er þetta er lag um brotnar vonir en líka um manneskjur sem finna hvort annað í sorginni og upp úr því sprettur ást. Ef þú bíður nógu lengi og horfir til hamingjunnar, þá mun hamingjan finna þig. Svo ég er alltaf að færa mig meira og meira í píanóið, sem er mjög áberandi í þessu lagi.“

Þann 14. febrúar heldur Bubbi sína árlegu Valentínusar-tónleika, en hann hefur staðið fyrir þeirri hefð síðustu fimm árin.

„Ég verð með beint streymi frá Hlégarði í Mosfellsbæ. Þetta eru 90 mínútna tónleikar, bara með ástarlögum. Eða lögum um ástina, þar sem ég segi sögur af ástinni í allri sinni mynd. Nýja lagið er hreinræktað ástarlag, en fjallar engu síður um manneskju sem kemur úr fangi sorgarinnar og í lendir í fanginu hjá ástinni sinni.“

Ástin er einstök

Bubbi segist ekki vera sammála Paul McCartney þegar hann söng „This is just another silly love song.“

„Ég held að ástin sé það fallegasta, mikilvægasta og það dýpsta sem fyrirfinnst í mannlífinu. Allir stórkostlegustu hlutir heimsins hafa orðið til út af því að ástin á þar í hlut. Vissir þú að Napóleon Bonaparte skrifaði stundum tuttugu ástarbréf til Jósefínu á dag? Maður sem var kannski í miðri orrustu en hafði samt tíma til að skrifa ástarbréf. Þetta er geggjað,“ segir hann.

Þorláksmessutónleikar Bubba voru í beinu streymi í ár og salan á þá gekk ótrúlega vel. Miðar fyrir um 20 milljónir seldust á einungis fimm dögum.

„Þar sem COVID er ekki að leyfa okkur að halda Valentínusartónleikana í sinni upprunalegu mynd, þá ætlum við að streyma þeim beint, bara nákvæmlega eins og á Þorlák. Svo ætla ég að bjóða fólki úr fjölskyldunni minni og bestu vinum að koma og horfa.“

Dagur í lífi Bubba

Bubbi segir ástandið í heimsfaraldrinum í raun ekki hafa haft mikil áhrif það hvernig hann semur og skapar.

„Ég hef ekki upplifað það. Það er engin breyting á því hvernig ég vinn og skrifa núna og fyrir tíu árum. Ég er mjög harður við sjálfan mig og með gríðarlegan aga. Ég vakna, kíki í gufubaðið, fæ mér kaffi. Síðan fer ég í æfingafötin og út í bílskúr, þar sem ég æfi eins og brjálæðingur, í um það bil 80 mínútur. Svo er það aftur gufubað og sturta. Eftir það fer ég inn og byrja að skrifa. Og ef ég er ekki að fara í bæinn þá er ég að skrifa í kannski fjóra til fimm klukkutíma.“

Von er á plötu þann 6. júní í sumar, á afmælisdegi Bubba. Dugnaðurinn hefur skilað sér, því hann segist eiga efni í nokkrar plötur í viðbót og svo er von á ljóðabók frá honum á árinu.

„Aðalmálið er að þegar þú ferð að sofa á kvöldin, að hafa eitthvað að hlakka til á morgnana. Mér þykir svo gaman að vakna. Ég er svo spenntur að fara að skrifa og takast á við daginn. Mér finnst enginn dagur leiðinlegur. Mánudagar eru til dæmis uppáhaldsdagarnir mínir, því þá er heil vika fram undan. Mér finnst ógeðslega gaman að vera til og mér mun finnast það þar til að ég hætti að vera til,“ segir hann.

Bubbi lofar kósítónleikum ársins þann 14. febrúar, eins og hann orðar það sjálfur.

„Öll pör og elskendur. Takið þið þetta kvöld frá. Þið eigið að hlusta á Bubba og svo þurfið ekkert að segja meira hvað þið ætlið að gera,“ segir Bubbi og hlær.

Lagið Á horni hamingjunnar er hægt að nálgast hér. Miðar á Valentínusartónleikana fást á tix.is