Flest erum við að verða meðvitaðri neytendur og átta okkur á þeirri vá sem neysla okkar hefur skapað umhverfinu. Það er vel hægt að njóta hátíðahaldanna án þess að ruslatunnurnar séu yfirfullar af matarafgöngum og umbúðum og húsið fullt af dóti sem enginn þarf í raun á að halda. Gjöf sem er úthugsuð og umhverfisvæn er svo sannarlega ekki minna virði en rándýr gjöf sem þiggjandinn þarf ekkert endilega á að halda.

Sumir hafa jafnvel notað viskastykki eða annars konar efni sem til er á heimilinu og pakkað inn í það. Nordicphotos/Getty

Hugmyndir að umhverfisvænum gjöfum

Upplifun

Hér reynir á að rifja upp á hverju þiggjandinn hefur áhuga. Hvort sem það er miði í bíó eða leikhús eða gjafabréf í skautahöll eða út að borða þá slær slík gjöf oftast í gegn. Viðkomandi mun klárlega kunna að meta að þú hugsaðir út í áhugamál hans og keyptir miða á til dæmis tónleika með uppáhalds innlenda tónlistarmanni hans eða hennar. Gjöfin skapar eftirvæntingu og vonandi frábæra upplifun. Það gæti passað að bjóða upp á þinn félagsskap þegar gjafarinnar er notið en það þarf auðvitað ekkert endilega.

Heimagerðar gjafir

Hvers vegna ekki að taka frá einn dag á næstunni og útbúa konfekt, sultu, kæfu, smákökur eða hvað það er sem þú kannt, setja í krukkur sem ganga af i heimilishaldinu og skreyta á náttúrulegan hátt? Slíkar gjafir slá oftast í gegn og koma sér vel þegar gesti ber að garði. Einnig er hægt að útbúa náttúrulega húðskrúbba, sápur, krem o.s.frv. og skreyta fallega. Undirbúningurinn getur einnig verið góð fjölskyldustund á aðventunni sem er auka plús.

Notaðar vörur

Aldrei fyrr hefur eins mikið af flottri notaðri vöru verið aðgengileg hér á landi með tilkomu nokkurra markaða sem selja slíkt, Barnaloppan og Barnabazaar selja fatnað og leikföng á börnin og hafa aldeilis slegið í gegn hjá foreldrum. Trendport og Extraloppan bjóða svo upp á vörur fyrir fullorðna, fatnað, fylgihluti og húsbúnað og má finna ódýrar gersemar á öllum þessum stöðum.

Gjöf sem gefur

Það er nú fátt meira passandi hinum sanna jólaanda og að styrkja góðgerðarfélag um leið og þú gleður ástvin um jólin. Fjölmörg góðgerðafélög selja gjafavörur og rennur ágóðinn til starfseminnar. Einnig má nefna Sannar gjafir UNICEF en þá kaupirðu nauðsynjavöru sem fer til þeirra sem á þurfa að halda en færð gjafabréf fyrir vörunni sem þú svo getur laumað undir tréð.

Umhverfisvænar gjafir

Með því að gefa til dæmis fallegt fjölnota kaffimál, ál nestisbox eða vatnsbrúsa, umbúðalausar umhverfisvænar snyrtivörur, fallegan fjölnota poka o.s.frv. þá slærðu tvær flugur í einu höggi: Gjöfin er umhverfisvæn og stuðlar að umhverfisvænni hegðun þiggjandans.

Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi hvetur fólk til að gefa upplifanir, eða jafnvel bjóða þiggjandanum örnámskeið í einhverju sem þú ert góður í, til dæmis gítartíma eða heklkennslu.

Framleiða upplifunarávísanir

Rakel Garðarsdóttir stofnandi Vakandi, samtaka sem vilja stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla er ötul baráttukona þegar kemur að verndun umhverfisins og framleiðir nú í ár sérstakar upplifunarávísanir.

„Fyrst og fremst þá mæli ég með að annaðhvort gefa hluti sem fólki vantar, eða þá að gefin sé upplifun eða eitthvað sem hægt er að neyta,“ segir Rakel aðspurð um jólagjafirnar í ár.

Vakandi framleiðir nú í ár upplifunarávísanir sem eru auðvitað stórskemmtilegar gjafir og gaman að hanna þær að þörfum og áhugamálum hvers og eins.

„Ég get auðvitað ekki mælt nógu mikið með að fólk nái sér í upplifunar heftið frá Vakandi sem virkar eins og ávísanahefti. Í hverju hefti eru tíu blöð, þá er hægt að nota það sem tíu gjafir og gefa allskyns upplifanir.

Ég mæli með að gefa kannski vinahópnum göngutúr á ákveðinni dagsetningu sem endar í skemmtilegu matarboði hjá gefandanum. Eða ef þú kannt til dæmis eitthvað sem ættingja þinn eða vin langar til að læra þá er hægt að gefa tíma í það. Þetta gætu verið fimm tímar í að læra á gítar, kennsa í hekli eða bakstri á súrdeigsbrauði. Fyrir afa og ömmur er t.d tilvalið að gefa inneign á næturpössun eða þrif á íbúð.“

Óþarfa gjafir eru óþarfar

Þetta er í fyrsta sinn sem Vakandi gefur ávísanirnar út en Rakel segist hafa fundist vanta tól á markaðinn til að aðstoða fólk við að geta gefið upplifnar og sinn eigin tíma í jólagjafar. „Hugmyndin kom yfir kaffibolla með Ilmi Kristjánsdóttur sem er miki hugsjónarkona og ég á pottþétt eftir að gefa margar slíkar í jólagjöf í ár.“

Rakel bendir einnig á að leikhúsmiðar séu skemmtileg gjöf, einnig miðar á tónleika eða bíókort. „Gjafir sem hægt er að neyta er líka frábær gjöf, til dæmis matvæli, ekki verra ef það er heimatilbúið eða dekur baðvörur t.d frá umhverfisvænu merki eins og Verandi. Ekki gleyma svo að orð gleðja líka og því um að gera að skrifa fallega kveðju með gjöfinni - Munum bara að óþarfa gjafir eru óþarfar og ættu því ekki að enda í jólapakkanum í ár.“