Hvernig kom það til?

Elias: Við höfðum bara ekkert að gera einn daginn og fórum að hugsa um hvað væri skemmtilegt og þá datt okkur í hug að búa til fréttablað.

Þröstur: Fyrst átti það að heita Þriðjudagsblaðið en svo benti einn kennarinn okkur á að það gæti verið dálítið vesen. Svo við völdum nafnið Vikublaðið, því það er alltaf einhver vika.

Við vorum fjórir sem byrjuðum, en tveir hættu. En það er einn búinn að sækja um að vera með okkur.

Hvernig vinnið þið blaðið?

Þröstur: Við vinnum það í tölvu. Yfirleitt síðdegis á miðvikudögum. Þá byrjum við á að skoða netmiðlana og gá hvað er að gerast, breyta orðalagi frétta en ekki innihaldi og setja þær í okkar blað.

Elias: Kristín, kennarinn okkar hjálpaði okkur mjög mikið og hún prentaði út tvö fyrstu blöðin en svo fór pabbi minn að prenta fyrir okkur.

Þröstur: Við gefum blaðið út í fimmtíu til sextíu eintökum, handa öllum í okkar árgangi í Háteigsskóla og kennurunum.

Er fólk ánægt með blaðið?

Elias: Sumir. Það eru svona 80-90% sem lesa það en svo eru aðrir sem nenna ekki að lesa það og henda því strax.

Fylgist þið betur með því sem er að gerast eftir að þið byrjuðuð útgáfuna?

Elias: Já, ég er frá Argentínu og Ekvador og ég tek stundum Fréttablaðið og les tvær þrjár fréttir og kíki svo á myndasögurnar.

Þröstur: Við viljum líka vita hvað er búið að prenta því við viljum vera með nýjar fréttir.

Elias: Ég fékk hugmyndina um að fara stundum á BBC, því við kunnum báðir ensku.