„Við ætlum að vera þarna fyrir norðan í Skagafirði, í Kringlumýri, í hinum svokallaði Kakalaskála hjá Sigurði Hansen og vera þar með Sturlungaprógram á laugardaginn frá 13-16,“ segir geðlæknirinn Óttar Guðmundsson, auðheyrilega spenntur fyrir helginni.

„Við munum sjálfir tala um Sturlunga út frá okkar áhugasviðum. Einar ætlar að tala um Sturlunga í Skagafirði og ég ætla að tala um Guðmund Arason biskup,“ útskýrir Óttar.

„Svo kemur þarna karlakór og syngur lög sem eru tileinkuð eða koma fyrir í Sturlungu. Svo kemur Jóhanna Þórhallsdóttir, konan mín, og syngur líka,“ segir hann. „Þannig að þetta er svona söngur og fyrirlestrar, allt í nafni Sturlungu.“

Sálgreinir höfðingjana

Óttar segir staðinn, Kringlumýri þar sem Sigurður Hansen rekur Kakala­skálann, merkilegan. „Þar er Sigurður búinn að byggja minnisvarða um Haugsnesbardaga og hann er með mjög merkilega Sturlungasýningu. Við Einar höfum báðir góð kynni af Sigurði og ætlum aðeins að búa til smá viðburð þarna.“

Óttar hyggst sálgreina helstu höfðingja á laugardaginn eins og hann gerði í bók sinni, Sturlungu geðlæknisins. „Þar ræði ég mikið þetta siðrof sem í raun verður á Íslandi á þessum Sturlungatímum,“ útskýrir Óttar. Hann segir engin siðalögmál hafa verið í gildi á Sturlungaöld, bara siðleysið.

„Ég mun sálgreina höfðingjana alveg hægri, vinstri. Ég mun sálgreina alla sem ég get sálgreint, bæði frændur mína Sturlungana, og svo náttúrlega Ásbyrgingana og hina, en Einar hefur auðvitað skrifað fjórar bækur um Sturlungu, þannig að hann mun nálgast þetta á annan hátt.“ Aðspurður segir Óttar þá félaga vera frábært tvíeyki.

„Við spiluðum einu sinni fótbolta saman úti í Berlín hérna um aldamótin, við vorum nú ansi góðir þá, ég var nú reyndar í vörninni og hann frammi en við vorum góð blanda þá líka.“

Einar ræðir hitt

Aðspurður segir Einar hlæjandi að hann geti tekið undir með Óttari að þeir séu gott teymi, frá fornu fari, frá tíma sínum í Berlín.

„Við nálgumst þetta töluvert ólíkt við Óttar. Eins og hann sagði sjálfur, skrifaði hann bók þarna um persónu Sturlungu frá sjónarmiði geðlæknisins en ég hef ekki þennan læknisvinkil á þetta, en ég er með svona kannski skáldsagnahöfundarvinkilinn sem gengur út á að reyna að átta sig á fólki, átta sig á karakterum og hvað þau eru að hugsa og hvaða plott eru í gangi,“ útskýrir Einar.

Hann segir um að ræða gríðarlegar söguslóðir. „Og þarna réðust mikil örlög og Skagfirðingar hafa verið mjög duglegir á undanförnum árum að halda á lofti minningum þessara atburða.“

Einar segir að það sé hátíðlegt að vera á slóðum sögunnar.

„Ekki hátíðlegt í þeim skilningi að það verði einhver tignarblær eða drungi yfir því, við erum báðir léttir í bragði og Skagfirðingar frægir fyrir að vera miklir gleðimenn.“