Söng­konan Guð­rún Ýr Ey­fjörð, betur þekkt sem GDRN, er bæjar­lista­maður Mos­fells­bæjar árið 2019, en þetta kemur fram í til­kynningu. Hún var út­nefnd nafn­bótinni á sér­stakri há­tíðar­dag­skrá í lok bæjar­há­tíðarinnar Í túninu heima.

Menningar- og ný­sköpunar­nefnd Mos­fells­bæjar sér um val bæjar­lista­manns ár hvert og veitti Björk Inga­dóttir for­maður nefndarinnar Guð­rúnu verð­launa­grip eftir lista­konuna Ingu Elínu á­samt viður­kenningar­fé sem fylgir nafn­bótinni.

Guð­rún Ýr er upp­alin í Mos­fells­bæ og hefur verið í tón­list frá unga aldri. Hún hóf fiðlu­nám í Tón­listar­skóla Mos­fells­bæjar fimm ára, flutti sig síðar í Suzuki skólann og stundaði námið í ellefu ár. Eftir fiðlu­námið færði hún sig í djass­söng og djasspíanó í FÍH með­fram námi í mennta­skóla.

„Mig langar að þakka innilega fyrir þessi verðlaun, þetta er mikill heiður. En nú er ég búin að vera með minn eigin feril sem GDRN ekki nema í þrjú ár en ég hef verið að læra tónlist í um tuttugu ár og ég stæði ekki hérna í dag ef ekki væri fyrir allt frábæra tónlistarfólkið og tónlistarkennarana sem eru búnir að miðla af sinni reynslu til mín. Mig langar því að tileinka þeim þessi verðlaun, af því ég væri ekki hér í dag ef það væri ekki fyrir þau,“ sagði söngkonan við tilefnið.

Hún gaf út sína fyrstu tón­list árið 2017 og sló í gegn með laginu Lætur mig sumarið 2018. Á Ís­lensku tón­listar­verð­laununum fyrr á þessu ári hlaut Guð­rún fern verð­laun. Plata Guð­rúnar Hvað ef var valin poppplata ársins, lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna var valið popp­lag ársins. Að auki var Guð­rún Ýr valin söng­kona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hip­hopp­tón­listar og hlaut verð­laun fyrir tón­listar­mynd­band ársins við lagið Lætur mig.

Í rök­stuðningi menningar- og ný­sköpunar­nefndar segir: „Guð­rún Ýr er fyrir­mynd og inn­blástur fyrir konur í tón­list, upp­rennandi stjarna og magnaður mos­fellskur lista­maður.“