Tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni hlaut flest verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum í kvöld. Fer hún heim með fjögur verðlaun. Þá fengu Víkingur Heiðar, Auður, Karl Olgeirsson, Valdimar, Jónas Sig og JóiPé og Króli einnig flest verðlaun í kvöld. 

Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarárið 2018 voru veitt í Hörpu í kvöld. Jón Ásgeirsson fékk sérstök heiðursverðlaun á athöfninni og boðið var upp á fjölbreytt skemmtiatriði úr ýmsum áttum.

37 verðlaun voru  afhent á verðlaunaafhendingunni í kvöld en þess fyrir utan voru verðlaunin fyrir plötuumslag ársins afhent sérstaklega í þættinum Menningunni á RÚV kvöldið áður. Hér verður tæpt á öllu því helsta og hér fyrir neðan má finna heildarupptalningu allra verðlaunahafa. 

Sem fyrr segir hlaut tónlistarkonan GDRN, eða Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eins og hún heitir fullu nafni fern verðlaun á hátíðinni og má segja að þetta hafi verið kvöldið hennar. Plata GDRN, Hvað ef var valin poppplata ársins en hér er á ferðinni einstaklega frambærileg frumraun þar sem allt smellur saman, frábærar lagasmíðar og áhugaverðir textar. 

Lagið Lætur mig sem hún syngur með Flóna og samið með ra:tio var valið popplag ársins og Guðrún Ýr var kosin söngkona ársins í flokki popp, rokk, raf- og hiphopptónlistar. Að endingu fékk GDRN verðlaun fyrir myndband ársins við lagið Lætur mig en myndbandinu er leikstýrt af Ágústi Elí Ásgeirssyni. 

Auðunn Lúthersson (Auður) er búinn að stimpla sig rækilega inn og átti hreint út sagt frábært ár í fyrra og uppskar eftir því á verðlaunaafhendingu kvöldsins. Plata hans Afsakanir var valin plata ársins í raftónlist auk þess sem Auður var valinn lagahöfundur ársins 2018 en platan þykir afar heilsteypt verk sem einkennist af sterkum lagasmíðum og nær óaðfinnanlegri upptökustjórn og hljóðblöndun. Þess má geta að Auður hlaut flestar tilnefningar í ár eða alls átta talsins en hann hlaut jafnframt tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaunum árið 2017.

Plata ársins 2018 í Rapp og hiphopp var að þessu sinni skífan Afsakið hlé með JóaPé & Króla. Þeir félagarnir áttu líka lag ársins í flokki rapptónlistar en þar var lagið Í átt að tunglinu sem bar af í ár að mati dómnefndar og ekki má betur sjá en að JóiPé & Króli séu komnir til að vera.

Heiðursverðlaunin

Jón Ásgeirsson hlýtur heiðursverðlaun Samtóns í ár en það var mennta og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir sem afhenti Jóni verðlaunin og ekki annað sagt en að Jón Ásgeirsson sé verðskuldaður heiðursverðlaunahafi Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Jón Ásgeirsson er fæddur á Ísafirði 1928 og varð því níræður á síðasta ári. Jón hefur á langri æfi verið afkastamikið tónskáld, kennari og höfundur kennslubóka í tónlist. Á meðal kammerverka hans má nefna strengjakvartetta, blásarakvintetta, oktett fyrir blásara og Sjöstrengjaljóð fyrir strengjasveit. Konsertarnir eru sex fyrir ýmis hljóðfæri; síðast var flautukonsert hans frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í janúar á þessu ári.

Jón Ásgeirsson er einna þekktastur fyrir söngtónlist sína; sönglög, kórverk og óperur. Þá samdi Jón ballettinn Blindisleik sem sýndur var í Þjóðleikhúsinu árið 1979. Einsöngslög Jóns eru um 90 talsins. Hæst ber lög hans við ljóð Halldórs Laxness: Maístjörnuna, Hjá lygnri móðu og Vor hinsti dagur, þá má nefna sönglagaflokkinn Svartálfadans við ljóð Stefáns Harðar Grímssonar og hvert mannsbarn á Íslandi þekkir kórlag hans við vísur Vatnsenda-Rósu: Augun mín og augun þín. Á meðal stærri kórverka Jóns eru Tíminn og vatnið við ljóð Steins Steinarrs og Á þessari rímlausu skeggöld við samnefnt kvæði Jóhannesar úr Kötlum.

Jón kenndi um árabil við Kennaraskóla Íslands, síðar Kennaraháskóla Íslands. Hann var skipaður prófessor við skólann árið 1996, fyrstur allra til þess að gegna slíkri stöðu í listgreinum á Íslandi. Tólf árum síðar, árið 2008, var honum veitt doktorsnafnbót í heiðursskyni fyrir framlag hans til tónlistaruppeldis í skólum landsins.

Útgáfa ársins - Kvikmynda- og leikhústónlist

Davíð Þór Jónsson - Kona fer í stríð

Plata ársins - Opinn flokkur

Gyða Valtýsdóttir - Evolution

Plata ársins - Þjóðlagatónist

Umbra - Sólhvörf

Lag/tónverk ársins opinn flokkur / Þjóðlagatónlist / Kvikmynda- og leikhústónlist

Arnór Dan, Stone by stone

Plötuumslag ársins

Jónas Sig. - Milda hjartað

Hönnun: Ámundi Sigurðsson

Ljósmyndir: Jónatan Grétarsson

Upptökustjórn ársins:

Ómar Guðjónsson fyrir Milda hjartað - Jónas Sig

Rokk, popp, raftónlist, rapp og hiphopp

 

Plata ársins - Popp:

GDRN - Hvað ef

Plata ársins - Rokk:

Valdimar - Sitt sýnist hverjum

Plata ársins - Rapp/Hiphopp:

JóiPé & Króli - Afsakið hlé 

Plata ársins - Raftónlist:

Auður - Afsakanir

Lag ársins - Popp:

GDRN - Lætur mig

Lag ársins - Rokk:

Benny Crespo's Gang - Another Little Storm

Lag ársins - Rapp/Hiphopp:

JóiPé & Króli - Í átt að tunglinu

Lagahöfundur ársins

Auðnn Lúthersson (Auður)

Textahöfundur ársins

Svavar Pétur Eysteinsson (Prins Póló)

Söngkona ársins

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir (GDRN)

Söngvari ársins

Valdimar Guðmundsson

Tónlistarviðburður ársins

Aldrei fór ég suður

Tónlistarflytjandi ársins

Hatari

Bjartasta von Rásar 2 og Íslensku tónlistarverðlaunanna

Bríet

Tónlistarmyndband ársins 2018 - Albumm.is og Íslensku Tónlistarverðlaunin

GDRN – Lætur mig ft. Floni & ra:tio

Leikstjóri: Ágúst Elí

Sígild og samtímatónlist

Plata ársins - Sígild og samtímatónlist

Johann Sebastian Bach - Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónverk ársins - Sígild og samtímatónlist

Spectra - Anna Þorvalds

Tónlistarflytjandi ársins - einstaklingar : Sígild og samtímatónlist

Víkingur Heiðar Ólafsson

Tónlistarflytjandi ársins - hópar : Sígild og samtímatónlist

Strokkvartettinn Siggi

Söngvari ársins - Sígild og samtímatónlist

Oddur Arnþór Jónsson

Söngkona ársins - Sígild og samtímatónlist

Hallveig Rúnarsdóttir

Tónlistarviðburður ársins - Tónleikar : Sígild og samtímatónlist

Brothers eftir Daníel Bjarnason - Íslenska Óperan, Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einsöngvurum og kór Íslensku óperunnar

Tónlistarhátíð ársins - hátíðir : Sígild og samtímatónlist

Óperudagar í Reykjavík

Bjartasta Vonin - Sígild og samtímatónlist

Björk Níelsdóttir

Djass og blús

Plata ársins - Djass og blús

Karl Olgeirsson - Mitt bláa hjarta

Tónverk ársins - Djass og blús

Bugða - Agnar Már Magnússon

Lagahöfundur ársins - Djass og blús

Karl Olgeirsson

Tónlistarflytjandi ársins - Einstaklingar : Djass og blús

Kjartan Valdemarsson

Tónlistarflytjandi ársins - Hópar : Djass og blús

Stórsveit Reykjavíkur

Tónlistarviðburðir ársins - Djass og blús

Tónleikaraðir Jazzklúbbsins Múlans

Bjartasta vonin - Djass og blús

Daníel Helgason