Fjölskylda Óskars Aðils Kemp, sem slasaðist alvarlega á Reykjanesbrautinni fyrir rúmlega ári, hleypur til styrktar Von, félags til styrktar skjólstæðingum gjörgæsludeildar LSH í Fossvoginum, í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun. Óskar dvelur enn á Grensás en mun á morgun fara þrjá kílómetra ásamt eiginkonu sinni, Indu Hrönn Björnsdóttur.

„Við fjölskyldan vildum gera þetta í þakklætisskyni fyrir hve vel var hugsað um okkur þegar mest lá á í fyrra,“ segir Inda í samtali við Fréttablaðið. Hún dvaldi ásamt fjölskyldu sinni á gjörgæsludeild E6 í Fossvogi í tvo mánuði á síðasta ári eftir að Óskar stórslasaðist í umferðarslysi í apríl.

Ómetanlegur stuðningur

„Það var ómetanlegt að fá að vera hjá honum dag og nótt,“ segir Inda sem var á þeim tíma með tvö pínulítil börn þeirra hjóna. „Við gátum þannig átt góðar stundir í öllum viðbjóðnum og til dæmis borðað saman sem fjölskylda.“ Inda ítrekar að slík aðstaða skipti öllu máli á ögur stundu.

„Þetta er svo falið félag, þú veist ekki að þú þurfir á þessu að halda fyrr en þú lendir þarna.“ Upplifun Indu sé að engin búist við því að dvelja svo vikum skiptum á gjörgæslu. „Þetta er alveg einstök deild og mikilvægt fyrir okkur að fá að vera þarna á meðan Óskar barðist fyrir lífi sínu.“

Fjölskyldan tekur sprettin í maraþoninu á morgun til styrktar Von.

Þakklæti á erfiðum stundum

Von var stofnað árið 2007 af hjúkrunarfræðingum deildarinnar til að hægt væri að halda úti aðstandendarými. Kemp fjölskyldan hleypur til styrktar félaginu svo hægt sé að viðhalda deildinni. „Okkur langar til að gefa til baka,“ bætir Inda við og tekur fram að ekki sé sjálfgefið að finna fyrir þakklæti á slíkum tímum.

Hægt er að heita á fjölskylduna hér og styrkja aðstandenda félagið Von. „Óskar er enn á spítala en það var þessi deild sem skipti sköpun fyrir okkur á sínum tíma.“