Heiða Rut Ingólfsdóttir segist alveg orðlaus yfir góðvild einstaklings sem setti umslag í körfuna hennar síðasta miðvikudag þegar hún var að versla í Hagkaup. Þegar hún opnaði það sá hún pening og nafnlaus skilaboð.

„Ég er alveg gáttuð,“ segir Heiða Rut í samtali við Fréttablaðið í dag.

Í færslu sem Heiða setti á Facebook-síðu sína eftir atvikið kemur fram að hún hafi labbað einn hring í versluninni og sett nokkra hluti í körfuna. Þegar hún hafi farið að borga hafi hún svo séð rautt umslag og hafi hugsað með sér að einhver hafi líklega misst það í körfuna.

„Ég hugsaði með mér að það hefði einhver misst það, en þó væri það undarlegt þar sem því virtist hafa verið stungið á milli tveggja hluta,“ segir í færslunni.

Hún segir að þegar hún hafi verið búin að borga hafi hún loks kíkt á umslagið og orðið alveg orðlaus þegar hún sá þar fimm þúsund krónur og skilaboðin: „Þetta er kannski ekki mikið en vonandi hjálpar þetta við jólagjafainnkaupin. Gleðileg jól 😊“

Umslagið var skilið eftir í körfunni hennar Heiðu Rutar.
Myndir/Heiða Rut Ingólfsdóttir

Setti gjöf undir jólatré Smáralindar í staðinn

Heiða Rut segist aldrei hafa vitað slíka góðmennsku.

„Elsku góðhjartaði jólaálfur. Mikið er þetta falleg hugsun og kærleiksrík. Aldrei hef ég vitað slíka góðmennsku og ósérplægni,“ segir hún í færslu sinni.

Hún segir að blessunarlega sé hún og fjölskylda hennar í góðri stöðu fyrir jólin í ár og að hún hafi farið í gær og verslað gjöf sem hún setti undir jólatréð í Smáralindinni, en þar er hægt að skilja eftir jólagjafir fyrir börn í bágstaddri stöðu.

Ætlar að skilja eftir umslag einhvers staðar

Þá segist Heiða Rut alveg ákveðin í því að skilja eftir annað eins umslag í körfu einhvers annars fyrir jólin.

„Það er svo fallegt að einhver sé að gera svona án þess að þiggja nokkrar þakkir fyrir það. Það væri svo gaman ef þetta væri eitthvað sem fer af stað. Ég er alveg ákveðin í að gera þetta. Af hverju ekki? Í okkar tilfellii var ekki þannig séð þörf á þessu en maður veit aldrei hvað fólk er að upplifa eða ganga í gegnum. Fyrir marga getur þetta skipt rosalega miklu máli. Við erum heppin og mér finnst við geta glatt einhvern annan í staðinn,“ segir Heiða Rut að lokum.

Ég er orðlaus! Ég þurfti að skreppa aðeins í Hagkaup í Smáralind í dag. Ég labbaði hring um búðina og setti nokkra hluti...

Posted by Heiða Rut Ingólfsdóttir on Wednesday, 2 December 2020