Gítarleikarinn Gary Rossington, einn af stofnendum Lynyrd Skynyrd, lést í gær, 71 árs að aldri, og þar með eru allir stofnmeðlimir sveitarinnar látnir.
Hljómsveitin birti yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem tilkynnt var um andlát Rossington, en dánarorsök hefur ekki verið gefin út.
Rossington gekk í gegnum súrt og sætt á ferli sínum. Hann lifði af flugslys árið 1977 en í slysinu létust söngvarinn Ronnie Van Zant, gítarleikarinn Steve Gaines, bakraddasöngvarinn Cassie Gaines og þrír til viðbótar. Rossington slasaðist alvarlega og braut meðal annars fótlegg og báða handleggi.
Eftir slysið leið um áratugur þar til hljómsveitin kom saman á nýjan leik fyrir tilstilli Johnny Van Zant, bróður Ronnie. Rossington spilaði með sveitinni eins og heilsan leyfði honum, en hann gekkst meðal annars undir hjáveituaðgerð árið 2003 og þá fékk hann hjartaáfall árið 2015. Hann gekkst svo undir stóra hjartaaðgerð sumarið 2021.
Rossington lætur eftir sig tvær dætur og eiginkonu, Dale Krantz-Rossington, en þau gengu í hjónaband árið 1982.