Gárinn Snjó­korn sem er albínói hefur nýtt aukinn tíma með fjölskyldunni til þess að hjálpa eig­anda sínum, Árnýju Evu Sigur­vins­dóttur, að prjóna.

„Hann er búinn að vera mjög dug­legur að hjálpa mér að prjóna, eigin­lega of dug­legur,“ segir Árný sem hefur átt Snjó­korn í um þrjá mánuði.

Árný birti mynd­band á Face­book af Snjó­korni vera að að­stoða hana við prjóna­skapinn og í sam­tali við Frétta­blaðið segir hún hann vera sér­stak­lega gæfan og fé­lags­lyndan fugl.

„Við fengum hann í janúar, þá var hann tveggja mánaða. Eig­andinn sagði okkur að hann hefði fæðst frekar veiklu­legur og þess vegna hefði hann gefið honum mikið að borða í lófanum. Hann hefur því verið mjög gæfur og strákurinn var mjög snöggur að vinna traust hans og hann kom mjög fljótt sjálfur út úr búrinu og fær mikið að vera laus með okkur,“ segir hún.

Sonur Árnýjar er ein­hverfur og segir hún þá eiga ó­trú­lega fal­legt sam­band.

„Þeir spjalla mikið saman og Heiðar hefur eytt miklum tíma í að skoða alls­konar fróð­leik á netinu um Gára og sinnir honum vel. Hann sönglar mikið og lætur okkur vita ef hann vil koma út úr búrinu en hann er greini­lega mikil fé­lags­vera.“