Sigurður Jónsson, kokkur á Viðey RE 50 sem Brim gerir út, eldar mat ofan í þrjár kynslóðir sjómanna og þarf því að bjóða upp á fjölbreyttan og um leið hollan mat sem fellur vel í kramið hjá svo fjölbreyttum hópi. Áhöfnin telur fimmtán manns og eru túrarnir yfirleitt 4–6 daga langir en aldrei lengri en vika í senn. „Lengd túranna fer svolítið eftir árstíma en skipið er ferskfiskstogari og er allur aðbúnaður í heimsklassa, hvort sem það eru vistarverur eða vinnuaðstaða. Vinnudagurinn byrjar um kl. 7 og morgunmatur hefst kl. 8. Í hádegismat eru vaktaskipti en strákarnir eru flestir á átta tíma vöktum en 12 tíma vöktum í brúnni og í vél. Næst tekur við síðdegiskaffi og að lokum kvöldmatur. Þetta eru yfirleitt langir vinnudagar hjá mér en þeim lýkur milli kl. 21 og 22, það fer allt eftir því hversu mikið er kjaftað.“

Hann hefur starfað sem kokkur á sjó síðan árið 2013 og líkar vel við starfið. „Ég er lærður bakari en byrjaði reyndar upphaflega á sjó sem háseti árið 2010. Það þróaðist síðan þannig að ég fékk fastráðningu sem kokkur hjá fyrirtækinu.“

Fjölbreytnin í fyrirrúmi

Sjómennskan er líkamlega erfitt starf sem oft er unnið við erfiðar aðstæður. „Ég legg því mikla áherslu á að bjóða upp á hollan og góðan mat fyrir áhöfnina. Þar sem hér eru menn á öllum aldri legg ég mikla áherslu á að bjóða upp á fjölbreyttan mat fyrst og fremst, þannig að allir um borð fái eitthvað við sitt hæfi en það er ekkert endilega háð aldri hvað hverjum þykir gott. Oftast er kjötmáltíð í hádeginu en á kvöldin verður yfirleitt fiskur fyrir valinu. Hér borða menn því fisk daglega, enda er kokkurinn með aðgang að ferskum fiski á hverjum degi. Gamli góði heimilismaturinn er alls ekki á undanhaldi hjá mér heldur blanda ég þessu bara saman, klassískum heimilismat sem við öll þekkjum og eitthvað nýtt inn á milli. Sem dæmi er saltfiskur og skata nánast undantekningarlaust í hádeginu á laugardögum en það er hefð frá skipstjóranum sem ég lofaði að halda í. Þegar kemur að kjöti er þetta nokkuð mismunandi þó að íslenska lambakjötið sé mest á boðstólum.“

Góð matarlyst

Sjómenn hafa almennt góða matarlyst að hans sögn og kvarta ekki mikið yfir matnum, að minnsta kosti ekki í hans eyru. „Þetta eru miklir matmenn og þegar það er mikið að gera er vel tekið til matarins. Mér finnst áhöfnin almennt hugsa betur um hollustuna og passa upp á að borða fjölbreyttan mat. Hjá mér er fjölbreytileikinn að minnsta kosti númer eitt, tvö og þrjú, þannig að allir geti fengið eitthvað við sitt hæfi.“

Undirbúningur fyrir hvern túr er frekar hefðbundinn. „Þegar löndunardagsetning og næsta brottför liggur fyrir panta ég kostinn yfirleitt degi fyrir brottför. Kosturinn kemur svo á bryggjuna til okkar og um borð í skipið. Ég þarf líka stundum að kíkja í eina og eina búð sjálfur. Þetta er í sjálfu sér bara eins og að versla inn fyrir stórt heimili.“

Mikill hátíðisdagur

Sigurður ætlar auðvitað að halda upp á sjómannadaginn á morgun, sunnudag. „Við erum á leiðinni í land í dag, laugardag, og áhöfnin ætlar að taka forskot á sæluna og hittast í kvöld á veitingastaðnum Sjálandi í Garðabæ þar sem við ætlum meðal annars að borða góðan fisk. Sjómannadagurinn á morgun er auðvitað mikill hátíðisdagur fyrir alla sjómenn og fjölskyldur þeirra. Sjómenn almennt bera mikla virðingu fyrir þessum degi.“