Game of Thrones stjörnurnar Pedro Pascal og Bella Ramsey munu leika saman í sjónvarpsþáttaröð sem byggð er á einum vinsælasta tölvuleik síðari tíma, Last of us.

Bella Ramsey er 17 ára leikkona frá Bretlandi sem sló í gegn sem hin ákveðna Lyanna Mormont í síðustu þáttaröðum Krúnuleikanna. Hún mun leika hina fjórtán ára Ellie, sem hefur alist upp á hernumdu sóttkvíarsvæði í Boston í heimi eftir að sveppafaraldur útrýmdi næstum öllu mannkyninu og breytti þeim sem smituðust í uppvakninga.

Hún hittir vopnasmyglarann Joel, sem leikinn verður af Pedro Pascal, mann sem missti dóttur sína í upphafi faraldursins og hefur lært að bjarga sér með ýmsum ráðum, þegar leiðtogi skæruliðanna Fireflies fær hann til að smygla Ellie út úr borginni.

Á leið þeirra um Bandaríkin lærir Joel margt um Ellie og hvers vegna hún er svona mikilvæg fyrir málstað skæruliðanna og baráttu mannkynsins gegn faraldrinum.

Ellie og Joel þurfa að yfirbuga þá sem hafa smitast í faraldrinum. Fjögur stig smitaðra í faraldrinum í Last of us: Frá vinstri: Runner, stalker, clicker og bloater. Svo getur vel verið að það séu fleiri stig ef byggt verður einnig á leik númer tvö.
Mynd: Naughty Dog

HBO framleiðir þættina og byggja þeir að mestu leyti á fyrsta leiknum, sem kom út árið 2013. Hingað til hafa allar fréttir lofað góða en það er Craig Mazin, höfundur Chernobyl þáttanna, sem skrifar handritið með Neil Druckmann, höfundi Last of us leikjanna.