Ásmundarsalur við Freyjugötu er heillandi sýningarrými og þar er Kristinn Guðbrandur Harðarson, heiðurslistamaður myndlistarhátíðarinnar Sequences IX, að setja upp verk sín, með aðstoð tveggja hjálparliða. Á hvorn gafl eru máluð risastór verk, beint á vegginn, annað ljóst, hitt dekkra og textar einkenna þau bæði. „Ég hef alltaf verið mikið að fást við texta í myndunum mínum og samsetningar ýmissa þátta,“ segir listamaðurinn.

Kristinn Guðbrandur kveðst hafa unnið á blöðum „í gamla daga“ við að teikna upp síðurnar. Það var áður en tölvutæknin hélt innreið sína í blaðaútgáfu. „Svo fór ég út í alls konar listsköpun og hef víða komið við. Sýnt úti um allt hér á Íslandi og víða erlendis. Var meira að segja með einkasýningu hér í Ásmundarsal árið 1982, þá var hér gallerí. Svo var ég með fyrstu sýninguna sem haldin var á Suðurgötu 7,“ lýsir hann þegar hann lítur í fljótheitum yfir farinn veg.

Myndir málaðar á pappír, sem líka eru í bókinni. Þetta er sami heimurinn.

Var það sem hann málaði í upphafi eitthvað í ætt við það sem hann er að fást við núna?

„Við erum að tala um fjörutíu ár, ýmislegt breytist með tíðarandanum og maður þróast vonandi sem listamaður. En textanotkun hefur alltaf fylgt mér og oftast eru ólíkir þættir í sömu mynd sem búa til einhverja stemningu.“

Veistu alltaf þegar þú leggur af stað í nýtt verk hvert þú ert að fara?

„Nei, ég get ekki sagt það. En sýningin núna sprettur upp úr bók sem er nýbúið að prenta. Hún verður frumsýnd hér, Dauðabani heitir hún,“ segir Kristinn Guðbrandur. Viðurkennir að titillinn sé ekki upplífgandi en bendir á að dauðinn sé alltaf yfirvofandi.

Á hverri blaðsíðu bókarinnar er texta- og myndapar. „Myndirnar á sýningunni hér spretta út úr þessu bókverki,“ útskýrir Kristinn Guðbrandur. „Aðdragandinn er hugmyndir sem leita á mig og koma frá einhverju sem vekur athygli mína – frá minningum eða texta – og ég byrja á að krassa niður á blöð. Það er efniviðurinn sem ég hef unnið úr,“ segir hann og sýnir mér í tölvu margs konar teikningar, stórar og smáar. „Þetta er margra ára safn. Ég tók mig til í fyrra, fór yfir þetta allt og bjó til seríu úr myndum til að ná þessu efni saman. Í tölvunni eru textinn og myndirnar saman en í bókinni splittast þær – á sýningunni hér renna þær svo saman aftur.“

Á hliðarvegg Ásmundarsalar er verið að raða upp myndum sem málaðar eru á pappír. Þær birtast líka í bókinni, að sögn Kristins Guðbrands. „Þetta er allt sami heimurinn, samsafn af alls konar áreiti sem tengist saman,“ segir hann. „Þar er bæði gaman og alvara eins og í lífinu sjálfu.“